150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi aðeins aftur um sjúkraþjálfarana af því að það hékk aðeins út af mínu fyrra svari. Hv. þingmaður nefnir að útboðsgögnin snúist bara og nánast eingöngu um einingafjölda. Það er ekki rétt. Þarna erum við að sjálfsögðu að tala um gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að þjónustunni sem er alltaf nr. eitt.

Ég vil líka bæta því við fyrra svar mitt áðan að þegar við tölum um að bæta við fjölþættari þekkingu heilbrigðisstétta í heilsugæsluna erum við ekki bara að tala um þekkingu sjúkraþjálfara heldur líka það að við nálgumst sjúklinga á fyrsta stigi þjónustunnar meira út frá teymishugsun. Þar nefndi ég áðan, í svari við hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, aðkomu félagsráðgjafa og ég vil nefna líka iðjuþjálfa sem gætu sannarlega komið þarna að.

Hv. þingmaður réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þar sem hann spurði um mínar tilfinningar gagnvart Landspítalanum, þó að það væri náttúrlega fyrst og fremst spurningin um tilfinninguna fyrir því hvort nóg væri að gert í fjárlagafrumvarpinu eins og það er lagt fram núna. Ég hlýt að segja það að ég myndi ekki leggja frumvarpið fram eða minn kafla í frumvarpinu öðruvísi en að ég teldi að það væri þannig að það dygði. Ég hef hins vegar áhyggjur af stöðunni og ég hef sagt það í fjölmiðlum og ég tel að þessi samskipti sem eru í gangi núna milli ráðuneytisins og forstjóra spítalans séu til þess fallin að reyna að finna leið til að ná utan um þennan halla. Það kann að vera að það þurfi lengri tíma til þess en nákvæmlega þann tíma sem er núna fram að áramótum. En ég vænti þess að þær skýringar og þær leiðir til lausna sem forstjóri spítalans hefur kynnt muni duga.