150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi útgreiðslur í samræmi við samning hefur SÁÁ, Vogur, fengið nákvæmlega þær upphæðir sem eru í samræmi við samninginn sem félagasamtökin undirrituðu við Sjúkratryggingar Íslands. Ekki var gert ráð fyrir í þeim samningi, sem báðir aðilar skrifuðu undir með opin augun, að öll upphæðin yrði greidd út við undirritun samnings. Hv. þingmaður ætti að átta sig á því að útgreiðslur þessa fjár eru í samræmi við samninginn, að sjálfsögðu, og getur ekki verið öðruvísi.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þessar 50 milljónir og er það svo að 100 milljónir eru í samræmi við samning. Rætt var sérstaklega um göngudeildir og það var þannig sem hv. fjárlaganefnd lagði afgreiðsluna til við Alþingi og Alþingi samþykkti. Reyndar sat hv. þingmaður hjá við þá viðbótarfjárveitingu til SÁÁ, og það hefur valdið mér heilabrotum, hvernig standi á því. En varðandi þær 50 milljónir sem hv. þingmaður spyr um þá var þannig um þær búið í fjárlagafrumvarpinu eða í afgreiðslu fjárlaga að þær yrðu nýttar til SÁÁ í samræmi við stefnumótun ráðuneytisins í áfengis- og fíkniefnamálum. Það sem síðan var tekin ákvörðun um í samræmi við mesta þörf var að nýta það fé sérstaklega til SÁÁ fyrir brýnt meðferðarúrræði ungmenna, en þar þurfti að gera tilteknar breytingar til að koma til móts við athugasemdir og áhyggjur fólks.