150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég get ekki að því gert að mér finnst hv. þingmaður ekki vera í sérstaklega góðri stöðu, að láta eins og hún sé í einhverju sérstöku sæti sem gefur henni stöðu til að vega og meta til hvers peningar voru settir til SÁÁ sem hún greiddi ekki einu sinni atkvæði með. Þá hef ég einhvern veginn misst þráðinn. Það sem stendur í afgreiðslu fjárlaga og Alþingis er að fjármagnið hafi átt að fara til göngudeilda og í samræmi við stefnumótun ráðuneytisins. Við höfum farið að því og við förum að lögum í heilbrigðisráðuneytinu.

Hv. þingmaður lýsir áhyggjum sínum af fíkniefnum og ávanabindandi lyfjum og ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns. Það sem ég hef leitast við að gera, sem er á mínu borði ef svo má að orði komast, er að reyna að ná utan um það sem heita lyfseðilsskyld lyf og er það sem er vísað á af læknum og fer út úr lyfjaverslunum með þeim leiðum. Þannig höfum við náð árangri milli áranna 2017 og 2018, umtalsverðum árangri þar sem dregið hefur úr slíkum lyfjum, hvort sem það eru ópíóíðar eða önnur lyf sem geta leitt til ávana. Það breytir því ekki að það kann að vera áfram heilmikið af lyfjum á markaði og þannig er það því miður. Við sjáum merki um að við séum að tala um mögulega aukinn innflutning og aukna skipulagða glæpastarfsemi sem tengist beinlínis slíkum innflutningi. En það sem kemur að mínu borði, það sem ég hef getað breytt um lyfjavenjur o.s.frv. hef ég gert með því að breyta reglugerð og læknar hafa líka sýnt mikla ábyrgð í því að draga úr þessu og taka þetta mál til mikillar umfjöllunar sem sýnir sig á Talnabrunni embættis landlæknis að hefur náð verulegum árangri.