150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér geri ég grein fyrir þeim þáttum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið í frumvarpi til fjárlaga árið 2020. Í frumvarpinu birtist áframhaldandi framsókn í þágu mennta, vísinda, menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Heildarframlög málefnasviðanna vaxa úr rúmum 113 milljörðum í 115. Til samanburðar námu heildarframlögin tæpum 98 milljörðum kr. árið 2017 og er því um að ræða nafnverðshækkun upp á 17,5% eða 17 milljarða á þremur árum.

Undanfarin ár hafa framlög til háskóla og rannsóknastarfsemi verið aukin verulega og er ráðgert að þau nemi tæpum 41 milljarði á næsta ári. Þetta er hækkun um 22,3% frá árinu 2017 þegar þau námu tæpum 33,4 milljörðum. Unnið er að heildstæðri menntastefnu Íslands til ársins 2030, þvert á skólastig. Á sviði háskóla stendur yfir endurskoðun á reglum um fjárveitingar til þeirra með það að markmiði að styðja betur við gæði í háskólastarfi. Þá er einnig unnið að gerð stefnu um starfsemi rannsókna-, fræða- og þekkingarsetra og ráðgert að birta og hefja innleiðingu á stefnu Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og rannsóknargögnum. Framkvæmdir við Hús íslenskunnar muni halda áfram af fullum krafti á næsta ári sem mun auðvitað gjörbylta umgjörð um íslensk fræði og okkar mikilvægasta menningararf, sjálf handritin. Í fjárlagafrumvarpinu fylgjum við eftir áherslum um nýliðun kennara og er sérstakt 220 millj. kr. framlag til verkefnisins. Skemmst er frá því að segja að þessar aðgerðir hafa gengið einstaklega vel og um er að ræða 45% aukningu í umsóknum í grunnskólakennarafræði í Háskóla Íslands. Það veldur því m.a. að í stað þess að kennaraþörf væri hugsanlega upp á 1.600 manns árið 2032 er sú þörf komin niður í 168. Þessum aðgerðum hefur því miðað mjög vel en við þurfum að halda áfram með þær.

Endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna gengur mjög vel og frumvarp þess efnis verður lagt fyrir þingið í haust. Þetta er nýtt stuðningskerfi sem felur í sér aukið gagnsæi og jafnræði styrkja til námsmanna. Markmiðið er að jafna stöðu námsmanna og námsaðstoðin sem mun bjóðast verður í formi lána á hagstæðum kjörum og til viðbótar verða beinir styrkir vegna framfærslu barna og 30% niðurfelling á höfuðstóli lánsins.

Á framhaldsskólastiginu munu framlögin nema um 36,3 milljörðum kr. en um er að ræða 20% nafnvirðishækkun frá árinu 2017, en stiginu tilheyra auk skólanna sjálfra tónlistarfræðsla, vinnustaðanám og jöfnun námskostnaðar. Við viljum að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu starfs- og bóknámi og ein af megináherslum í fjárlagafrumvarpinu 2020 er á starfsnám og reikniflokkurinn hækkar þar mest. Við erum einnig að bæta verknámsaðstöðu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla og svo erum við að vinna að því að bæta verulega húsakost Menntaskólans í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Við höldum áfram að vinna í þágu menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála fyrir alla landsmenn. Framlög til málefnasviðsins nema alls um 16,1 milljarði, en í fjárlagafrumvarpi árið 2017 var um að ræða 12,2 milljarða. Meðal áhersluverkefna er að setja íslenskuna í öndvegi í samræmi við ýmsar aðgerðir og heildstæða nálgun. Til marks um áherslur stjórnvalda einblínum við stöðugt á það að bæta læsi og styrkja stöðu tungunnar. Við hækkum framlög í Bókasafnssjóð um 63% á milli ára. Við ætlum einnig að bæta aðgengi og miðlun menningar og lista og erum að vinna að útfærslu að vísindasafni fyrir börn og ungmenni. Þá er í fjárlagafrumvarpinu eyrnamerkt fjármagn til stuðnings fjölmiðlun, í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, sem nemur um 400 millj. kr. og stefni ég að því að leggja fram frumvarp þess efnis sem miðar að því að styðja m.a. við ritstjórnir einkarekinna fjölmiðla.

Virðulegi forseti. Okkur hefur miðað mjög vel áfram á þeirri vegferð að sækja fram á málefnasviðum mennta- og menningarmála.