150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:59]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það sem brennur á mér í dag og mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir eru tvö atriði. Hið fyrra er hvernig fjármunum er skipt á milli háskóla, á hverju skiptilíkanið grundvallast. Er það eftir nemendafjölda sem endurspeglar væntanlega starf skólanna? Ég sé það í hendi mér að einn háskóli er áberandi stærstur og spurning hvort ætlunin sé að hann eigi að stækka enn frekar og þá á kostnað þeirra minni. Ég velti fyrir mér hvort ekki eigi eitthvað meira að koma til, t.d. hvort háskólar eigi ekki að fá aukið fjármagn þrói þeir sveigjanlegt nám eða þjóni sem best landinu öllu. Er það rétt að einn háskóli fái umframfjármagn miðað við nemendafjölda? Ég gæti nefnt fleiri þætti, t.d. hvort ekki sé eðlilegt að fjármagn frá ákveðnu happdrætti renni til alls háskólakerfisins eða hvort fjármagnið sem kemur í gegnum óskráðu trúfélögin skiptist ekki örugglega á milli allra ríkisreknu háskólanna. Þetta var kannski meira útúrdúr, en þó.

Síðari spurningin sem ég hef til hæstv. ráðherra snýr að ríkisstyrkjum sem hún nefndi áðan, ríkisstyrkjum til fjölmiðla. Hvernig er ætlunin að útfæra þá styrki? Það væri gott að fá smánasasjón af því hvernig sú aðgerðaáætlun lítur út sem hún fjallaði um þar sem ég tel einsýnt að komin sé fram markviss aðgerðaáætlun miðað við að rétt bráðum eigi að leggja fram frumvarp þess efnis.