150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar framsögu hér áðan. Ég vil fylgja eftir því sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir kom inn á í síðari spurningu sinni. Í þingmálaskrá fyrir komandi þingvetur má sjá að hæstv. ráðherra áformar að leggja fram frumvarp strax nú í september til breytinga á lögum um fjölmiðla og segir þar að frumvarpið muni fela í sér ýmsar aðgerðir sem ætlað er að styrkja rekstur einkarekinna fjölmiðla, en útfærslan er ekki nákvæmari en þetta.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Nákvæmlega í hverju felast áform hæstv. ráðherra? Ég bæti við að útfærslan hlýtur að liggja fyrir þar sem ráðgert er að málið komi fram nú í september. Hvaða áform hefur ríkisstjórnin uppi um fjárstyrki til fjölmiðla og hvernig á að útfæra þau áform? Er ætlunin að styrkja aðila sem birta eigin skoðanir, sjónarmið og viðhorf eða verður gerð krafa um að stunduð sé sjálfstæð fréttamennska af hálfu faglegrar og sjálfstæðrar ritstjórnar sem grundvölluð er á faglegum starfsreglum í blaðamennsku og miðlun eftir viðurkenndum aðferðum blaðamanna?

Síðari spurning mín fjallar að einhverju leyti um það sama, en undanfarin ár, eins og hæstv. ráðherra kannast nú við, hafa verið þrálátar umræður og fyrirætlanir um að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði — og hún kom nú að því í svari sínu áðan. Ég vil þess vegna spyrja: Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þessa, sem myndi óneitanlega bara í sjálfu sér styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla? Verði af þessu, hvaða áform eru uppi um það að leggja á nýja skatta til að bæta Ríkisútvarpinu upp það tekjutap sem af þessu myndi óneitanlega hljótast?