150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:08]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur á sínum ferli komið ýmsu til leiðar og hrundið af stað þjóðþrifamálum. En ég hef þó áhyggjur af því hvernig framlögum til skólanna er háttað. Á bls. 276 í frumvarpinu segir að heildargjöld framhaldsskólastigsins lækki um 76 millj. kr. á föstu verðlagi 2019 eða sem svarar til 0,2%. Í þessu sambandi þurfum við að muna að stytting framhaldsskólans varð til þess að nemendum fækkaði og þá var því lofað aftur og aftur að þeir peningar sem myndu sparast við styttinguna yrðu notaðir til að styrkja þessa skóla. Þetta rímar heldur ekki við margumrædda stórsókn, að lækka heildartöluna eins og alveg skýrt er gert. Það brýtur bæði þessi loforð.

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að hafa orð á því að það vantar mikið upp á að staðið sé við loforð stjórnarsáttmálans um að fjármögnun háskólastigsins nái viðmiði OECD og Norðurlandanna. Við nálgumst nú mjög breytta tíma, byltingartíma, þar sem er augljóst að háskólarnir þurfa að taka að sér mjög stórt hlutverk við endurmenntun fólks — í fjórðu iðnbyltingunni. Eins og málum er háttað núna hafa háskólarnir frekar þurft að vísa fólki frá. Mig langar að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort hún telji að háskólarnir séu í stakk búnir til að takast á við þær áskoranir með áframhaldandi framlögum.