150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hvað varðar Listaháskólann og allt það frábæra starf sem þar er unnið er það rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að við höfum farið í þarfagreiningu og valkostagreiningu og það er búið að vinna að mögulegri framtíðaruppbyggingu Listaháskólans í talsvert langan tíma. Í mínum huga er röðin komin að honum. Næstu framkvæmdir sem verður farið í á háskólastiginu verða í tengslum við Listaháskólann. Svo ég upplýsi þingheim um það erum við að bíða eftir endanlegri greiningu á stöðunni og mér skilst að hún eigi líklega að klárast á næstu vikum og þá sjáum við hvaða kostur kemur best út. Ég held að framtíð Listaháskólans sé býsna góð. Það er hugur í öllum að ráðast í framkvæmdir hvað varðar Listaháskólann þannig að ég get upplýst hv. þingmann um að þær eru á stefnuskrá stjórnvalda. Við bíðum öll spennt eftir niðurstöðunni, hvernig þetta kemur allt út.

Varðandi bráðavandann, já, við erum búin að ná utan um hann. En ég get líka upplýst þingheim um að ég tel að það verði að bæta þann húsnæðiskost sem Listaháskólinn hefur búið við og núverandi aðstæður þarf að bæta og við þurfum að sinna því vel. Ég get líka sagt við hv. þingmann að við erum algjörlega á tánum hvað þetta varðar. Mér hefur reyndar fundist þetta hafa tekið talsverðan tíma, ég skal segja það hér, og ég brýni mitt ráðuneyti og það fólk sem starfar að þessu máli mjög mikið og það er mjög öflugt fólk sem starfar í Listaháskólanum og rektorinn sérstaklega, svo ég nefni það hér.

Varðandi háskólastigið og fjármögnun þess erum við klárlega að gera það sem þarf að gera og við nálgumst markmið okkar núna óðfluga. Eftir nýjustu tölur sem ég hef fengið frá Efnahags- og framfarastofnuninni um hvernig staðan var 2016 er ég mjög vongóð um að við náum meðaltali 2020.