150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi símenntun og þekkingarsetur erum við að vinna að því að uppfæra fjármögnunarlíkan til að sá kraftur og sú orka sem hvílir í símenntun nýtist því að símenntun og þekkingarsetrin skipta okkur miklu máli. Það er til endurskoðunar í ráðuneytinu og ég verð að segja við þingheim að ég er mjög meðvituð um allan þann virðisauka og hversu gott starf Austurbrú er að vinna. Við vitum t.d. að hlutfall háskólamenntaðra er talsvert lægra á þessu svæði og eitt af því sem Austurbrú hefur verið að gera afskaplega vel er að búa til ný tækifæri og hugsa um fjarnám og margt annað og þar er mjög sterk og góð forysta. Annað sem Austurbrú gerir mjög vel er íslenskukennsla og þeir hafa náð mjög góðum árangri þar, þannig að ekki er nokkur vafi í mínum huga að Austurbrú sinnir þessu mjög vel. Við erum að skoða nýtt reiknilíkan til að geta mætt betur þörfum þekkingarsetranna.

Hvað varðar menninguna og Norðurland er það hárrétt hjá hv. þingmanni að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er að gera að mínu mati stórkostlega hluti og mikil auðlind sem býr þar. Ég hef nú þegar sett af stað vinnu til að huga að því hvernig við getum tryggt meiri fjármuni til Sinfóníuhljómsveitarinnar. En ég vil líka segja að ég hef beint því til sveitarstjórnarstigsins að það megi huga að skiptingunni innan samningsins, hvort meira eigi að fara í Sinfóníuhljómsveitina en nú þegar er gert. En vinna er þegar hafin í ráðuneytinu, við erum því að svara þessu ansi myndarlega nú þegar.