150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er rík ástæða til þess að við hugsum öll um stöðu fjölmiðla, bara út af tímunum. Eins og hv. þingmaður þekkir hefur orðið gjörbreyting á landslagi fjölmiðla með tilkomu alþjóðlegra efnisveita og því hvernig allt efni er kynnt í raun og veru í dag. Hv. þingmaður nefnir að hann hafi áhyggjur af því að frumvarpið sé svolítið sniðið að tímanum í dag eða jafnvel fortíðinni. Hins vegar er eitt af meginmarkmiðunum að efla ritstjórnir fjölmiðla og ég held að ritstjórnir hætti ekkert sem slíkar. Það þarf alltaf að huga að ákveðinni fagmennsku og gæta að alls kyns viðmiðum og að fagmennska ráði ríkjum þannig að ég held að það sé mjög gott í frumvarpinu.

Varðandi nýjar leiðir og nýsköpun í fjölmiðlun er það eitthvað sem mætti hugsanlega skoða betur. En ég held hins vegar að eitt af lykilatriðunum, og það á ekki bara við um Ísland, það á við um öll löndin í kringum okkur, sé að það eru allir að reyna að ná utan um þessa samskiptabyltingu sem hefur átt sér stað og alþjóðlegar efnisveitur vegna áhrifanna á tekjur, auglýsingatekjur. Þær hafa ekki í eins miklum mæli runnið frá Íslandi til þessara efnisveinta og í Danmörku eins og ég nefndi til að mynda áðan, Danir eru að horfa upp á að 50% auglýsingatekjum eru þegar farnar þangað. Þetta snýr auðvitað allt að tekjuuppbyggingu fjölmiðla. Hún er gjörbreytt vegna þeirra tíma sem við erum stödd á. En þarna þurfa allir svolítið að koma að vegna þess að þetta gerist mjög hratt. En það skiptir máli að vera með öflugar og faglegar ritstjórnir.