150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir inngang hennar og þátttöku í umræðunum í dag. Ég vildi fá tækifæri til að spyrja nánar út í eitt atriði sem hæstv. ráðherra nefndi í inngangsræðu sinni og það varðar stuðningskerfi við námsmenn sem boðað er að hafist verði handa við á fjárlagaárinu. Við höfum heyrt ráðherra nefna að í hennar áformum sé gert ráð fyrir því að stuðningskerfinu verði breytt þannig að frekar verði um að ræða samsetningu af styrkjum og lánum og að styrkveitingar sem í dag eru kannski frekar ógegnsæjar í námslánakerfinu verði gerðar gegnsærri með kerfisbreytingum að þessu leyti. Ég vildi gjarnan biðja ráðherra að fara aðeins nánar inn á það hvernig þetta er hugsað.

Eins vildi ég biðja hæstv. ráðherra að fara nánar inn á það hver kostnaðurinn við þetta verði eða hvaða breytingar hið nýja kerfi muni hafa eða kunni að hafa á fjárþörf á þessu sviði. Í fjárlagafrumvarpinu vekur athygli að þar kemur fram að það hafi verið ofáætlað inn í námslánakerfið miðað við núverandi skilyrði. Ég velti fyrir mér hvernig það spilar saman við áform um breytt kerfi.