150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta mikilvæga mál. Nú erum við að vinna í róttækum kerfisbreytingum á því hvernig við aðstoðum námsmenn. Spurt er: Hvernig kemur þetta út? Þetta kemur þannig út að ef námsmaður klárar nám sitt á tilsettum tíma verður 30% niðurfelling á höfuðstólnum og ásamt því veitum við styrki í stað lána með hverju barni. Stuðningurinn er því umfangsmeiri hvað það varðar. Við höfum reiknað ótal dæmi. Sums staðar kemur fram, sér í lagi hjá barnafólki, að það getur munað um 40% á nýja og gamla kerfinu. Menn eru betur settir og þeim á líka að takast að klára að greiða námslánin fyrr, m.a. vegna þess að um niðurfellingu á höfuðstólnum er að ræða. Þetta er framsýnt frumvarp vegna þess að eitt af því sem við sjáum er að fæðingartíðni er í sögulegu lágmarki og fólk er farið að eignast börn mun síðar á lífsleiðinni. Við erum að styðja sérstaklega við fjölskyldufólk sem ég tel mjög jákvætt.

Spurt er um kostnað og hvernig þetta komi út. Við gerum ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs verði í kringum 8 milljarða, mjög svipað og hann hefur verið á síðustu árum, þannig að hlutfallslega fær hver námsmaður meira, m.a. vegna þess að mikil fækkun hefur orðið í umsóknum. Fækkunin nemur 52% á tíu árum. Við gerum þó ráð fyrir því í frumvarpinu að einhver aukning verði en þetta er umfangið (Forseti hringir.) og við höfum átt í mjög góðu samstarfi við starfsfólk lánasjóðsins um þessar breytingar.