150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Í útreikningum okkar gerum við ráð fyrir því að eftirspurnin muni aukast umtalsvert, allt að 40%. Hv. þingmaður spurði hvers vegna eftirspurnin hefði minnkað svo mikið sem raun ber vitni. Í fyrsta lagi sýnist okkur á þeim könnunum sem við erum að skoða að ungmenni séu lengur í foreldrahúsum. Í öðru lagi vekur athygli að íslenskir námsmenn, til að mynda þeir sem eru á Norðurlöndunum og sér í lagi í Danmörku, kjósa frekar að taka lán þar af því að þeir hafa aðgengi að þeim eins og Norðurlandabúar hafa aðgengi að lánasjóðnum okkar. Þeir kjósa frekar að taka lán þar sem getur verið varhugavert í þeim skilningi fyrir Ísland að um verður að ræða ákveðinn spekileka. Við getum misst frá okkur fólk sem er jafnvel búið með grunnmenntun og er að bæta við sig meistaragráðu og ílengist vegna þess að það tekur námslán annars staðar en á Íslandi. Í þriðja lagi má segja að ákveðin viðhorfsbreyting sé að eiga sér stað í samfélaginu varðandi skuldsetningu. Við sjáum í flestum hagtölum, bæði hjá fyrirtækjum og heimilum, að heimilin hafa verið að greiða upp skuldir. Eignastaða heimila er með besta móti og það sama á við um fyrirtækin.

Það kann að vera að á síðustu tíu árum, eftir fjármálahrunið, hafi viðhorf Íslendinga til skuldsetningar að einhverju leyti breyst og ég held að það skýri þetta út að einhverju leyti.