150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í áform varðandi breytingar á lánasjóðnum eða styrktarsjóði námsmanna eins og hann á að heita. Það eru kannski þrír þættir sem ég myndi vilja skoða. Í fyrsta lagi er verið að gerbreyta kerfinu og á sama tíma er tímabundið skorið verulega niður framlagið og í ljósi þess að það er alveg óljóst hvernig nýtt kerfi fer af stað, hver fjármögnunarþörfin verður, finnst mér þetta ábyrgðarlaus nálgun. Það er í raun verið að varpa svolítið vandanum á fjármögnun þessa kerfis yfir á næstu ríkisstjórn. En í því samhengi þá velti ég fyrir mér: Hversu skynsamlegt er það að tengja styrki við lántöku? Það er alveg rétt að lántökum eða umsóknum hefur fækkað um helming en ég óttast að það verði stóraukin ásókn í lán ef styrkveiting til náms er tengd lántöku, að námsmaður verði að skuldsetja sig til þess að geta hlotið styrk til náms. Ég velti fyrir mér: Hafa verið unnar einhverjar áætlanir um það hvaða áhrif slíkt hefur? Þetta er verulega stór breyta í ákvörðun ungs fólks til að taka lán og ég held að það sé fagnaðarefni að ungt fólk hafi ekki verið að taka lán nema rík þörf sé til. Ég óttast það dálítið að þarna sé settur mjög mikill hvati til aukinnar skuldsetningar ungs fólks og hvort ekki hefði verið nær að íhuga einfaldlega beina styrkveitingu á móti námsframvindu, eins og reyndar hugmyndir stóðu til áður. Í fyrri lotu myndi ég gjarnan vilja fá aðeins nánar frá ráðherranum hversu mikið er búið að hugsa þetta.