150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það sem er eitt aðalatriðið í þessu frumvarpi er að við viljum tryggja jafnt aðgengi að námi á Íslandi. Sumir námsmenn eiga þess kost að búa í heimahúsum, aðrir ekki. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að aðstoða þá sem þurfa á aðstoðinni að halda en ekki endilega þá sem þurfa ekki á því að halda. Þannig forgangsröðum við fjármunum hjá þessari ríkisstjórn og þess vegna gerum við þetta svona.

Hv. þingmaður minntist á það hvort við ættum ekki að vera með styrkina og sleppa þessum lánum eða gera þetta einhvern veginn öðruvísi. Það vill þannig til að þetta er alveg úthugsað og tekur mið af þeim breytingum sem eiga sér stað á Norðurlöndunum. Danska kerfið hefur verið þannig að þeir hafi verið með beina styrki og þeir eru að hverfa frá því og fara inn í mjög svipað kerfi og við erum að setja upp.

Hv. þingmaður nefndi að hann hefði mjög miklar áhyggjur af fjármögnuninni, og ég skil það vel, þegar hann les fjárlagafrumvarpið, það sé eins og verið sé að taka mikla fjármuni úr ríkisfjármálaáætlun frá þessu kerfi. En vegna þess að kerfið hefur verið offjármagnað á síðustu árum þá munum við nota handbært fé til að fjármagna þessar breytingar og svo munum við líka fara inn í eigið fé LÍN. Við höfum tekið ákvörðun um að gera þetta vegna þess að lánasjóðurinn hefur verið að safna umtalsverðum fjármunum sem við munum nýta. Við erum búin að gera fjármögnunaráætlun. Til að byrja með munum við ganga á þessa sjóði og það er alveg skýrt. Svo mun ríkissjóður taka við og á endanum vera með um 8–9 milljarða þannig að það er ekki verið að minnka fjármögnun lánasjóðsins heldur frekar verið að auka þegar gengið er á uppsafnaða sjóði.