150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en það breytir ekki því að ég lít á þetta sem verulegan hvata til lántöku og ég óttast að það muni hafa áhrif til aukinnar skuldsetningar fólks. Ég hefði talið heppilegra að út frá sambærilegum viðmiðum, eins og um fjölskylduaðstæður, búsetu, barnafjölda o.s.frv., væri einfaldlega smíðað beint styrkjakerfi og væri hægur vandi að sníða slíkt kerfi að þörf. Stór hluti af hugsuninni á bak við þetta kerfi er auðvitað líka að tryggja tímanlega námsframvindu sem er gott markmið og að því leytinu til hugnast mér betur upplegg forvera hæstv. ráðherra í embætti, Illuga Gunnarssonar, að beina styrkveitingum beint til námsmanna en ekki gera það að kröfu að námsmenn verði að taka lán til að geta fengið styrk. En við munum fá tíma til að ræða þetta frekar.

Ég velti hins vegar öðru fyrir mér í seinni ræðu. Ráðherra hefur verið tamt að tala í efsta stigi um stórsókn í menntakerfinu. Þegar ég legg saman þá útgjaldaaukningu sem orðið hefur á háskóla- og framhaldsskólastiginu frá 2017 að telja til og með 2020 miðað við þetta fjárlagafrumvarp er það heildarútgjaldaaukning upp á 10,5 milljarða. Þegar það sem liggur þarna að baki er síðan brotið niður þá eru launa- og verðlagsforsendur 8,5 milljarðar, að meðtalinni aukafjárveitingu vegna hækkandi leigugjalda hjá framhaldsskólastiginu, og síðan koma um 2 milljarðar inn á næsta ári í byggingu Húss íslenskra fræða. Ég velti því fyrir mér: Er það stórsókn í menntakerfinu að standa við gerða kjarasamninga til kennara og verðbæta framlögin til skólakerfisins?