150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er stórsókn í menntamálum þegar við sjáum að umsóknir í kennaranám eru að aukast um 45%. Þetta er aðgerð sem við erum að setja 220 milljónir í. Ég myndi segja: Þarna er verið að fara mjög vel með fjármuni. Það að geta framkallað svona með því að kynna til leiks fimm aðgerðir, þ.e. starfsnámið, styrkinn, leiðsagnarnámið og allt það, og að það séu um helmingi fleiri karlmenn sem sækja um að fara í kennaranámið, kalla ég stórsókn. Stórsókn að því leytinu til að við ætlum að gjörbreyta umgjörðinni í kringum kennarann og það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist til.

Við vorum að sjá tölfræði í dag frá Efnahags- og framfarastofnuninni. Hvað segir hún okkur? Hún segir okkur að árið 2016 vantaði 6% upp á það að við næðum svokölluðu OECD-meðaltali en frá þeim tíma erum við búin að auka framlög til háskóla að nafnvirði um 22,3% frá 2017, að raunvirði um 7,3%. Það eru allar líkur á því að okkur takist að gera það sem við sögðumst ætla að gera. Ég er mjög ánægð með það.

Stórsókn felst líka í því að vera með vitundarvakningu um það hvað menntun skiptir miklu máli. Þar held ég að okkur hafi tekist mjög vel til og það skiptir mig líka miklu máli að við nýtum fjármagnið vel. Við sjáum það á framhaldsskólastiginu, við erum að forgangsraða í þágu starfsnáms og það er aukning í Tækniskóla Íslands um 32% á þessum stutta tíma þannig að efsta stigið virðist vera að skila einhverju.