150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er ljóst og við sjáum það í tölunum að mikil fækkun hefur orðið meðal þeirra sem sækja um námslán. Af hverju hef ég áhyggjur af því? Ég hef áhyggjur af því vegna þess að ég held að það bitni á jöfnum tækifærum til náms á Íslandi. Eins og ég nefndi í svari mínu búa sumir það vel að þeir geta búið í foreldrahúsum til að byrja með í námi og svo eru aðrir sem geta það ekki og þeirra kjör eru mun lakari, ekki bara lakari þegar þeir eru í námi heldur til framtíðar vegna þess að viðkomandi aðilar skulda þá umtalsvert meira.

Ein meginhugsunin í þessu frumvarpi gengur út á það að jafna lífskjör, burt séð frá efnahag, búsetu eða öðru slíku.

Ég ætla að nefna dæmi um nýja og gamla kerfið. Ég er hér með Jónu sem fór í fimm ára nám, tók sem sagt meistaragráðu, og hún er með þrjú börn. Í gamla kerfinu tók hún 10,6 milljónir í lán. Þegar búið er að fella niður 30% af láninu og veita henni styrki með börnunum mun hún skulda í nýja kerfinu 5,8 milljónir. Þetta er rosaleg breyting. Í stað þess að greiða af láninu í 27 ár verður hún 17 ár að greiða það. Þetta eru mjög róttækar kerfisbreytingar sem munu stuðla að auknum jöfnuði.

Hv. þingmaður nefndi þá sem glíma við lesblindu. Það er mjög alvarlegt og getur verið einstaklega erfitt fyrir viðkomandi aðila að fóta sig í menntakerfinu en þá er býsna gott að koma aftur til náms á Íslandi. Þessi ríkisstjórn hefur til að mynda fellt niður 25 ára regluna, þ.e. að það væri erfiðara fyrir þá sem voru 25 ára að sækja um nám í framhaldsskólum.