150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:59]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til fjárlaga 2020 er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkisins á árinu nemi um 1.005 milljörðum kr. Hlutur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis nemur um 74 milljörðum, þ.e. 7,3%. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárheimildir á ábyrgðarsviði ráðuneytisins hækki um 8,1% á milli ára, um tæplega 5,5 milljarða. Það bætist við ríflega 10 milljarða hækkun síðustu tveggja ára, 2018 og 2019. Háar fjárhæðir bætast því við í samgöngumálin sem gera okkur kleift að taka risastökk inn í framtíðina — og veitir ekki af — og renna styrkari stoðum undir samkeppnishæft atvinnulíf og góð efnahagsleg lífskjör.

Til samgangna og fjarskipta fara tæplega 48 milljarðar. Langstærstur hluti fer til samgöngumála eða ríflega 45 milljarðar og sá hlutur eykst um 11,1% á milli ára. Of litlu hefur verið varið til viðhalds á vegakerfinu til að mæta aukinni umferð en 27 milljarðar renna til ýmissa verkefna sem er aukning um 16,8% á milli ára. Ég lofaði landsmönnum góðum árangri á næsta ári en verulegur viðsnúningur hefur orðið á fjárveitingu til samgöngumála og þarf ekki að líta lengra en til ársins 2017 til að sjá að fjárveitingin hefur aukist um heil 53% frá þeim tíma — en þá var hún ríflega 9 milljörðum lægri.

Meðal helstu áherslna er að unnið verður að uppbyggingu stofnleiða út frá höfuðborgarsvæðinu og aðskilnaði akstursstefnu. Framkvæmdum við Dýrafjarðargöng mun ljúka á árinu og hafnar verða löngu tímabærar framkvæmdir við Vestfjarðaveg um Gufudalssveit. Til að bregðast við aukinni umferð í landinu verður framlag til þjónustu eins og snjómoksturs, hálkuvarna o.fl. hækkað um 12% á milli ára og verður ríflega 6 milljarðar, en frá 2017 er sú hækkun um 34%.

Þá hækkar framlag til innanlandsflugs um 137 milljónir en frá árinu 2017 nemur hækkunin 48%. Áhersla verður á viðhald, m.a. endurnýjun slitlags á Egilsstaðaflugvelli og á kostnaðarþátttöku ríkisins í flugfargjöldum innan lands fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Það er hin svokallaða skoska leið.

Þá verður svokallaður höfuðborgarpakki kynntur í næstu viku sem byggir á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til 15 ára og fjallar um uppbyggingu samgöngumannvirkja, almenningssamgöngur, umferðaröryggi, loftslagsmál og greiðari samgöngur.

Eitt helsta markmið í fjarskiptum er landsátak í lagningu ljósleiðarakerfa utan markaðssvæða í dreifbýli undir verkefnisheitinu Ísland ljóstengt. Komandi ár er fimmta og næstsíðasta árið sem ríkið styrkir ljósleiðaravæðingu sveitarfélaga með fjárveitingum gegnum fjarskiptasjóð en hann hefur numið um 450 millj. kr. ár hvert.

Þá verða á næsta ári stigin markviss skref í átt að auknu netöryggi.

Til sveitarfélaga og byggðamála er helst að nefna framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem verða ríflega 21 milljarður og aukast um 3,9% á milli ára. Á meðal verkefna næsta árs er að breyta reglum jöfnunarsjóðs til að tryggja aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaga. Ég verð að segja að ég gladdist innilega í síðustu viku þegar landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti tillögu stjórnar til landsþingsins um að mæla með því að Alþingi samþykkti tillögu um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun næstu fimm ára. Þetta er stór áfangi á langri vegferð og á næstu vikum mun reyna á þingmenn alla í umræðum um þessa tillögu til þingsályktunar. Ég hef miklar væntingar til þess að málið verði afgreitt farsællega og í mikilli sátt. Við stöndum á tímamótum og getum tekið stefnuna í átt að stórtækum umbótum í opinberri stjórnsýslu.

Fjárveiting til byggðamála eykst um 2,8% og nemur ríflega 2 milljörðum. Þar af fer ríflega helmingur til byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta, rúmlega 1,1 milljarður. Ég tel þessum fjárveitingum vel varið. Sem dæmi um verkefni nefni ég fjarheilbrigðisþjónustu, en í gegnum byggðaáætlun verður stutt við tækjakaup í því sambandi. Þá vil ég einnig nefna stuðning við fjarvinnslustöðvar sem gengur út á að koma opinberum gögnum á stafrænt form og fjölga með því atvinnutækifærum á landsbyggðinni.

Fjárheimild Þjóðskrár Íslands hækkar um 5,6% á milli ára og verður tæplega 2 milljarðar. Það skýrist einkum af hækkun rekstrartekna vegna nýrrar þjónustu en sem dæmi má nefna að stofnunin áformar að gefa út rafræn ferðaskilríki. Endurbætur á þjóðskrárkerfinu hafa verið unnar í áföngum en nokkuð vantar upp á að kerfið geti uppfyllt þær þarfir sem löggjafinn ætlar því. Á undanförnum misserum hafa allmörg frumvörp komið fram í þinginu sem kalla á breytingar á þjóðskrárkerfinu. Endurbætur á kerfinu ganga því hægar en æskilegt er.

Þá verða á næsta ári stigin markviss skref í átt að auknu netöryggi í samræmi við nýsamþykkt frumvarp þess efnis. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar verður efld og sérhæfðum búnaði komið upp. Þá verður tekin í gagnið vefgátt fyrir tilkynningar um öryggisbresti sem gengur þvert á ráðuneyti og stofnanir. Á sviði póstmála mun reyna á samkeppni á því sviði í kjölfar afnáms einkaréttar Íslandspósts. Stjórnvöld munu eftir sem áður tryggja aðgang að lágmarkspóstþjónustu um land allt og nú er unnið að samningi þess efnis.