150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:07]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir mikið á fimm mínútum en hv. þingmaður fór yfir enn meira á þessum tveimur og spurði mig margra spurninga. Ég gæti örugglega þurft 20 mínútur til að svara. En ég myndi fara varlega í sporum hv. þingmanns í að túlka svokallaðan höfuðborgarpakka þar til hann verður kynntur og undirritaður og þá gætum við tekið umræðu um hann.

Eins og ég sagði í máli mínu snýst þetta um heildarhugsun, annars vegar ríkisins og hins vegar sveitarfélaganna sem hafa náð saman um heildarsýn, um framtíðarsýn um uppbyggingu umferðar til þess að ná fram ólíkum markmiðum um greiðari samgöngur, um loftslagsmarkmið, loftgæði, almenningssamgöngur og fleira í þeim dúr. Við skulum ræða það þegar sú niðurstaða liggur fyrir.

Hluti af því samtali sem við höfum náð að eiga saman á síðasta einu og hálfu ári með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hefur einmitt snúist um það hvernig við getum komið Sundabrautinni fyrir sem hefur verið í samtali, umræðu, eins og hv. þingmaður kom inn á, í í það minnsta 30 ár, sumir segja 45, en alla vega í síðustu 10–15 ár í einhverjum skeytasendingum milli annars vegar Vegagerðarinnar og borgarinnar. Því er lokið. Við höfum náð sameiginlegri sýn á ákveðna hluti. Þar liggur fyrir að fara þarf í gegnum tvo ólíka kosti um helstu tenginguna við Reykjavík, þ.e. hvort möguleiki sé á að fara í jarðgöng eða að fara svokallaða lágbrú sem væri enn betri kostur. En það kallar á frekari viðræður við Faxaflóahafnir, Reykjavíkurborg og hugsanlega skipafélögin um breytt fyrirkomulag þeirra. Sú brú væri auðvitað ódýrari en fyrst og fremst væri hún miklu betri samgöngubót fyrir Grafarvoginn og tengingu Sundabrautar inn í kerfið okkar allt saman. Hún myndi nýtast miklu betur, hjólandi, gangandi og ólíkum ferðamátum. (Forseti hringir.)

Ég verð að fá að nota síðari hluta svars míns til að fara yfir allar hinar spurningarnar.