150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hans og sérstaklega vil ég fagna því að hann deili áhuga mínum á að leysa málefni tengd byggingu Sundabrautar. Ég er með nokkrar fleiri spurningar. Ég ætlaði t.d. að spyrja hæstv. ráðherra hvernig nýkynnt áform hæstv. ráðherra um jarðgangagerð á Austfjörðum komi til með að spila saman við aðra brýna jarðgangagerð í landinu og mætti þar nefna fjölmörg fyrirhuguð eða áætluð jarðgöng víða um land, hvernig þau komi til með að spila saman.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra um innanlandsflug, hvort ráðherrann telji forsendur til að afnema virðisaukaskatt af eldsneyti í innanlandsflugi til jafns við það sem þekkist í millilandafluginu. Ég veit að þetta er ekki á málefnasviði ráðherra en spyr hvort hann deili með mér þeirri skoðun að það sé ósanngjarnt að eldsneyti í innanlandsflugi beri virðisaukaskatt en ekki í millilandaflugi.

Loks er ég með spurningu varðandi höfnina í Þorlákshöfn. Flestum er ljóst að sú höfn hefur tekið hvað mestum breytingum á undanförnum árum, þ.e. höfnin í Þorlákshöfn í Ölfusi. Í fyrsta skipti fer stór hluti ferskvöru til Evrópu um suðurströndina, auk þess sem annar inn- og útflutningur hefur orðið hagstæðari með styttri siglingaleiðum á markaði. Siglingin verður styttri því að ekki þarf að sigla fyrir Reykjanesið til Reykjavíkur. Þetta sparar og ekki síður veldur það minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Því spyr ég hæstv. ráðherra, sem er jafnframt þingmaður Suðurlands, hvort ráðuneytinu hafi borist skýrsla sem unnin var fyrir sunnlensk sveitarfélög um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif af uppbyggingu Þorlákshafnar og í hvaða farveg hann hyggist setja þær tillögur sem þar koma fram.