150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fínar spurningar. Þingmaðurinn hélt því fyrr fram að hér hafi ítrekað verið bið eftir samgönguáætlun. Ég kannast ekki við það, svo að ég svari því. Við komum með samgönguáætlun eins fljótt og mögulegt var á síðasta ári og á þeim tíma sem hægt var vegna þess að sú samgönguáætlun sem þá hafði verið í gildi var að renna út. Ég held að það hafi tekist ágætlega og þingið fór vel yfir hana. En við sögðum jafnframt að við værum með mjög mörg mál í pípunum, til að mynda er varða innanlandsflugið, höfuðborgarsvæðið, jarðgöng og slíka hluti sem við þyrftum aðeins meiri tíma í. Þess vegna munum við væntanlega koma með uppfærða samgönguáætlun strax á næsta ári þó að samkvæmt lögunum sé talað um á a.m.k. þriggja ára fresti. Ég tel að við séum að gera það og hún verði komin fram í október, vonandi um miðjan október, með öllum þeim þáttum sem þar eru inni. Þar eru m.a. áform um sérstaka jarðgangaáætlun sem hluta af samgönguáætlun. Þar eru fyrst og fremst þau jarðgöng sem síðasta samgönguáætlun sagði að væru næst á dagskrá, þ.e. göng til Seyðisfjarðar. Fyrir liggur skýrsla um hvernig sú forgangsröðun að mati viðkomandi aðila eigi að vera og við erum að skoða hana núna í ráðuneytinu í samstarfi við Vegagerðina og þurfum að ræða hana líka við umhverfis- og samgöngunefnd og hef ég í hyggju að gera það.

Einnig má segja, af því að hv. þingmaður nefndi fleiri göng, að tvöföldun Hvalfjarðarganga yrði kannski ekki í þessari skýrslu eða alla vega bara nefnd sem sérverkefni af því að hún yrði væntanlega gerð með svokallaðri samvinnuleið eins og við þekktum með Hvalfjarðargöngin. Sama gildir um göng í gegnum Reynisfjall og láglendisveg um Mýrdal sem yrði væntanlega líka slíkt verkefni, samvinnuleið þar sem það yrði gert með sérstökum hætti.

Svo vil ég að lokum taka undir hvað varðar Þorlákshöfn. Þar hafa stórkostlegir hlutir verið gerðir, m.a. með stuðningi ríkisins, síðustu ár og mikilvægt að fylgja þeim eftir því að þar eru mjög áhugaverð áform uppi og uppbyggingin þar hefur gengið mjög vel og (Forseti hringir.) hún er ódýr í ljósi þess sem einu sinni var lagt til og ég skoðaði upp úr aldamótum.