150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:20]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vissi að það mætti treysta hv. þingmanni til að taka umræðuna málefnalega. Það er einmitt það sem við þurfum að gera. Ég er reyndar ekki á því að væntingar um miklar framkvæmdir á Íslandi séu til komnar vegna hástemmdra yfirlýsinga. Ég upplifi það miklu frekar að fólk einfaldlega sætti sig ekki við það vegakerfi sem það býr við hringinn í kringum landið eftir alla þá umferðaraukningu sem hefur orðið á síðustu árum. Með því að hafa stóraukið framlögin núna á síðustu árum viðurkennum við að lengi vel settum við of litla peninga í þetta. Þannig að ég held að væntingarnar séu bara eðlilegar. En það er kannski okkar hlutverk að gera fólki grein fyrir því að við getum ekki gert allt í einu. Þess vegna erum við að reyna að forgangsraða til 15 ára og þess vegna erum við kannski líka að segja að við viljum öll, held ég, gjarnan ná meiri árangri á kannski sjö, átta árum. Þá er það spurningin: Hvernig gerum við það? Er það möguleiki að fólk vilji í raun, eins og ég hef t.d. heyrt á fólki fyrir austan sem var að fjalla um jarðgöng sem sagðist vera alveg til í að horfa á færeyska módelið þar sem notendagjöld standa undir hluta af framkvæmdakostnaðinum ef það mætti verða til þess að sú framkvæmd kæmist miklu fyrr á dagskrá en ella þannig að fólk fengi meira umferðaröryggi fyrr, skilvirkari og greiðari umferð?

Það er síðan önnur umræða og ég get verið sammála hv. þingmanni um að sum lönd, Noregur hefur verið nefndur, hafa án efa gengið allt of langt í því að leggja á þessi gjöld sem viðbótargjald til fjármögnunar. Mér finnst það ekki í sjálfu sér markmið. Ríkisvaldið getur auðvitað skoðað hvernig tekjum af bílum og notkun þeirra er háttað. Við vitum að innan fárra ára þurfum við að breyta því vegna þess að eldsneytisgjöld munu fara minnkandi þannig að við erum kannski svolítið í þeim fasa að þurfa að ræða það hvernig við (Forseti hringir.) getum nýtt tækifæri til að flýta framkvæmdum án þess að stórauka álögur á bílaeigendur. Ég sé ekkert markmið í því í sjálfu sér.