150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:23]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér gríðarlega mikilvægan málaflokk og það er ánægjulegt að sjá að nú er verið að verja mun hærri framlögum til nýframkvæmda og viðhalds í samgöngukerfinu en undanfarin ár. Vonandi sjáum við á næstu árum enn frekari hækkanir á þeim. Mig langar rétt að fara inn á helstu áherslur 2020 í samgöngumálunum, þá helst punktinn um að jafna aðgengi að þjónustu fyrir íbúa á landsbyggðinni með kostnaðarþátttöku í flugfargjöldum innan lands. Það væri áhugavert að heyra hjá hæstv. ráðherra hvernig þau mál standa í ráðuneytinu.

Hátt verðlag í innanlandsflugi er farið að bitna á lífsgæðum þeirra sem búa úti á landi. Þetta þekkjum við. Það er dýrt að fljúga og íbúar landsins verða að geta sótt sér nauðsynlega þjónustu á höfuðborgarsvæðið með greiðum samgöngum, þar með talið innanlandsflugi. Nauðsynlegt er að koma til móts við hátt verðlag á innanlandsflugi með því að innleiða skosku leiðina svokölluðu sem veitir íbúum með lögheimili á ákveðnum landsvæðum rétt til afsláttar á flugfargjöldum. Með því verður innanlandsflug raunhæfur valkostur fyrir landsmenn og það jafnar búsetuskilyrði.

Fyrir áramót var skilað skýrslu sem sneri að þessum málum, m.a. skosku leiðinni og flugvallakerfinu. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar samþykkti þær tillögur og setti inn í meirihlutaálit í janúar og síðan samþykkti þingið skosku leiðina með 48 atkvæðum í byrjun febrúar.

Ég hef áhuga á að vita um framgang málsins og hvernig við ætlum að fara í þetta mál sem er eitt af helstu áherslumálunum í samgönguráðuneytinu á komandi ári.