150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:27]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Á bls. 221 er talað um helstu samgönguverkefni 2020 en þar kemur fram punktur um að hafnar verði viðræður við Isavia um nýtt fyrirkomulag rekstrar Reykjavíkurflugvallar, Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar. Hvað hefur gerst í þeim málum undanfarna mánuði og hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Fjármögnun flugvalla á Íslandi hrundi árið 2011 þegar farið var að vinna eftir hugmyndum starfshóps sem skilaði skýrslu árið 2009. Þar á undan, 1988–2010, höfðu fjárframlög til flugvallakerfisins verið 1.450 milljónir á ári að meðaltali, að raunvirði 2018, en þegar nýja kerfið komst á 2011 fóru þessi framlög að meðaltali niður í 350 milljónir. Þau lækkuðu fjórfalt.

Ég hef áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann hafi skoðað í ráðuneytinu þau málefni sem snúa að fjármögnun flugvallakerfisins og hvernig menn ætli að reyna að rétta hana af. Þetta hefur komið verulega niður á öllu viðhaldi og nýframkvæmdum í flugvallarkerfi landsins með þeim afleiðingum að víða er mjög illa komið fyrir flugvöllum vítt og breitt um landið.

Það er full þörf á að taka rösklega á þeim málum sem snúa að viðhaldi og nýframkvæmdum á flugvallarkerfi landsins.