150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:30]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta er hitt atriðið sem við komum með inn í samgönguáætlunarvinnuna í fyrra og umhverfis- og samgöngunefnd tók upp. Það er eitt af þeim atriðum sem líka er fjallað um í skýrslu hv. þingmanns. Ef við horfum á Norðurlöndin nota þau svona krossfjármögnun, þ.e. systurfélög Isavia reka þó nokkra flugvelli, alla í einstaka löndum, og tekjurnar sem þar verða til eru notaðar til að reka það sem minna er. Það var lagt til í samgönguáætlun og það er sú stefnumörkun Alþingis sem ég vinn eftir.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við þá kerfisbreytingu sem varð var svokallað varaflugvallagjald lagt af, m.a. vegna þess að menn töldu að það væri ekki löglegt, það hefði þurft að vera skattur en ekki gjald. Það er þó fyrir hendi. Það getur verið erfitt að leggja það á akkúrat á þessum tíma í rekstrarumhverfi millilandaflugs en það er augljós bæði umhverfislegur og rekstrarlegur ávinningur af því að á Íslandi séu varaflugvellir fyrir flugfélögin vegna þess að þau geta þá sparað sér fleiri hundruð milljónir, jafnvel vel á annan milljarð, með því að tilnefna varaflugvöll á Íslandi. En hann verður þá að vera almennilegur og fyrir hendi sem hefur kannski skort vegna þess að þangað hafa verið settir of litlir fjármunir í nokkur ár. Við sjáum fyrir okkur með þessari kerfisbreytingu, sem er alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum, að við myndum ná þessum árangri en við verðum að passa okkur á tvennu, annars vegar að koma ekki neikvætt inn í uppbyggingaráform Isavia í Keflavík og hins vegar að horfa á flugvallakerfið í heild. Þær tekjur sem þarna fóru út (Forseti hringir.) voru til að reka varaflugvöll. Við höfum tekið þær úr ríkissjóði upp á síðkastið og haldið uppi varaflugvallakerfi af kannski veikari mætti en við hefðum átt að gera, en langt umfram það sem við þyrftum að gera ef þetta væru eingöngu innanlandsflugvellir.