150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:34]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að taka upp málefni póstsins. Í stóru ráðuneyti þar sem samgöngumálin taka svolítið mikið þá gleymist það stundum. En pósturinn er mikilvægur og það er mikilvægt að tryggja lágmarksþjónustu og þess vegna fórum við fram með þetta frumvarp, af því að við vorum síðasta ríki Evrópu að afnema einkaréttinn sem hefur valdið alls konar vandamálum eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er þó rétt að geta þess varðandi rekstur Íslandspósts að hann heyrir undir fjármálaráðuneytið, þeir fylgjast með rekstrinum þar þannig að ég ætla ekki að svara fyrir það. En ég get svarað fyrir hitt að Póst- og fjarskiptastofnun er í raun og veru sjálfstæður eftirlitsaðili, ekkert ósvipað og Fjármálaeftirlit og Samkeppniseftirlitið á sínum sviðum, og fylgist með þeim þætti. Þar hefur alþjónustuþörfin verið metin og að menn hafi ekki verið að blanda þarna tekjum á milli eins og hv. þingmaður hefur farið yfir. Þetta er sjálfstæð eftirlitsstofnun og við höfum líka fengið niðurstöðu Ríkisendurskoðunar í því þannig að við eigum mikið af gögnum.

Ef við horfum fram á veginn og á þjónustusamninginn þá hefur það verið reynslan, og þess vegna var frumvarpið skrifað þannig upp, í nágrannalöndum okkar að þar var samið fyrst við þá aðila eða þá stofnun, sem hafði yfirleitt verið stofnun eða fyrirtæki í eigu viðkomandi þjóðar, sem byrjaði með þjónustuna. Síðan hafa menn kannski reynt að finna aðrar leiðir sem eru hagkvæmari eða jafnvel betri, einhver nýr aðili sem er tilbúinn að bjóða betri þjónustu, ég ætla ekki útiloka það. En ráðuneytið hefur farið þá leið að reyna að meta þennan kostnað með því að fá til þess óháða aðila eins og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Íslandspóstur var sjálfur með erlenda sérfræðinga (Forseti hringir.) til þess. En þetta er akkúrat verkefnið núna og þá erum við kannski að nálgast það betur hver er raunverulegur (Forseti hringir.) kostnaður við alþjónustubyrðina.