150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:41]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á samgöngumálunum og færa mig yfir í sveitarstjórnarmálin á eftir. En ég ætla nú að byrja á því að fagna 11–16,7% hækkun ríkisframlags til samgangna eftir því hvort við miðum við ríkisreikning eða fjárlög. Ég fagna líka ljósleiðaravæðingunni í dreifbýli sem brátt tekur enda. Þetta er eitt af því fáa sem ég get nefnt í stuttu máli.

Ég ætla að velta upp fjórum spurningum til hæstv. ráðherra, allar mjög léttar, laufléttar. Það er annars vegar með stofnbrautir og tengivegi utan höfuðborgarsvæðisins. Hvernig verður fjármögnun endurbóta þar tryggð á næstunni samkvæmt fjárlögum og öðru?

Í öðru lagi varðandi Vestfjarðaveginn í Gufudalssveit, fullfjármögnun hans og ég tala nú ekki um verklok.

Í þriðja lagi langar mig að nefna hvernig fjármögnun almenningssamgangna utan höfuðborgarsvæðisins verður háttað.

Í síðasta lagi var verið að ræða hér um Þorlákshöfn og fjármögnun framkvæmda þar. Það eru tvær aðrar hafnir á okkar löngu suðurströnd, þ.e. Höfn og Landeyjahöfn. Hvernig verður með fjármagn í þær brýnu framkvæmdir? Það eru jú hafnir sem eru mjög mikilvægar og hafa átt í vandræðum, ef við getum orðað það þannig, bæði Höfn vegna landriss og Landeyjar vegna sandburðar. Það er mjög brýnt að því verði vel fyrir komið. Þetta eru mínar fjórar laufléttu til hæstv. ráðherra.