150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:46]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þá að sveitarstjórnarmálunum. Ég vil gjarnan fá að fagna því að það eigi að efla sveitarstjórnarstigið og það eru ýmis önnur mál eins og fjarstörf utan höfuðborgarsvæðisins og fjarheilbrigðisþjónusta sem skipta þar miklu máli. Þetta eru allt hlutir sem eiga eftir að efla landsbyggðina að mínu mati.

En það sem ég ætla að spyrja um er þrennt að þessu sinni, fækka þá spurningunum um eina. Fyrst um skoðun hæstv. ráðherra á hlutverki landshlutasamtaka sveitarfélaga. Það er verið að ræða um að annaðhvort þurfi að efla þau eða a.m.k. komast til botns í því hvernig þau skulu vera og ég vil gjarnan heyra skoðanir ráðherra á því.

Þá um fjármögnun og eflingu Byggðastofnunar vegna brothættra byggða, sóknaráætlanir og annað sem hæstv. ráðherra nefndi. Hver er raunveruleg reynsla þar? Er ástæða til að spýta vel í eða hefur þetta kerfi ekki virkað nægilega vel?

Í þriðja og síðasta lagi snýr það annars vegar að fráveitum og hins vegar heildarskipulagi úrgangsmála. Fráveitur eru dýrar eins og allir vita, sérstaklega þar sem viðtakinn er viðkvæmur og kallað hefur verið eftir því að ríkið kæmi til móts við þetta eins og var. Þá spyr ég t.d. um niðurfellingu virðisaukaskatts eða annað slíkt, hvað er í bígerð. Svo varðandi heildarskipulagningu úrgangsmála, þar er um að ræða a.m.k. tvær leiðir. Við getum kallað það stóra brennslu á landsmælikvarða eða annars konar endurvinnslu og flokkun innan lands eða útflutning. Það eru ýmsar leiðir í því, má segja. Það á að vinna að þessu, að því er mér skilst, og það kemur í ljós í fjármálaáætluninni eða fjárlögunum öllu heldur. Hvað vill hæstv. ráðherra segja okkur um það?