150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Örstutt um Landeyjahöfn: Það er verið að klára í kringum nýjan Herjólf, það vantaði aðeins upp á á bryggjunum, svokallaða „stoppfendera“, sem er verið að gera ráð fyrir núna og svo er verið að byggja upp rafmagnstengingarnar en það þarf svolítið að hugsa upp á nýtt hvernig við getum dýpkað, sérstaklega í haust. Það er mjög mikilvægt til þess að halda höfninni opinni eins mikið og hægt er. En það getur líka tengst því sem við vorum að nefna með Grynnslin í Hornafirði þar sem landið er að rísa, hvort það sé einhver sambærileg reynsla sem við getum nýtt okkur á báðum stöðum. Ég held að það sé mjög áhugavert að skoða það og Vegagerðin hefur sett aukinn þunga í það.

Varðandi landshlutasamtökin þá er sérstakur starfshópur að störfum í anda stjórnarsáttmálans um að reyna að skilgreina þeirra hlutverk. Þau hafa smátt og smátt þróast í eins konar þriðja stjórnsýslustig sem við höfum aldrei tekið ákvörðun um og ég held að enginn vilji í raun. Þess vegna skiptir máli að það sé gert. Í því samhengi er hins vegar rétt fyrir okkur í þessum sal að velta því fyrir okkur að ríkisvaldið hefur ákveðið að skipta landinu með mismunandi hætti eftir mismunandi þáttum. Landshlutasamtökin eru átta úti á landi, gömlu kjördæmin. Þau vinna mjög þétt saman. Heilbrigðisumdæmin eru hins vegar öðruvísi þannig að t.d. lýðheilsuvísa landlæknis er ekki hægt að bera saman í sóknaráætlunum landshluta af því að þetta eru ekki sömu svæðin. Ferðaþjónustan er síðan með allt annað svæði fyrir markaðssetningu og þannig talar þetta ekki alveg saman. Ég hef verið að vekja athygli á því að þetta þurfi að skoða, að við séum bara alltaf með töluna átta þegar við dreifum skipulagi ríkisins.

Varðandi brothættar byggðir er reynslan góð. Hvort það þurfi að spýta meira í, það getur vel verið á einstökum svæðum. Þetta hafa að mestu leyti verið sjávarbyggðir, ekki að öllu leyti, þarna er Skaftárhreppur líka, en það eru nokkrar útskrifaðar. Ég ætla ekki að halda því fram að þær séu mjög sterkar en þær eru alla vega hættar að vera eins brothættar og þær voru.

Varðandi (Forseti hringir.) fráveiturnar og heildarskipulagið þá held ég að það sé mjög mikilvægt að ríkið komi að heildarskipulagi úrgangsmála. (Forseti hringir.) Við umhverfisráðherra höfum átt ágætisfundi um það að koma fram með í vetur einhverjar hugmyndir um stuðning við sveitarfélögin í fráveitumálum.