150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessa yfirferð. Ég er í þeim hópi sem hefur haft töluverðar áhyggjur af því hvernig staðið hefur verið að samgöngumálum hér ansi lengi. Þegar ríkissjóður ætti að hafa gott svigrúm til að ráðast í miklar framkvæmdir hefur niðurstaðan því miður gjarnan verið hið gagnstæða eins og oft vill verða þegar þrengir að. Fjárfestingum hefur helst verið skotið á frest og við sitjum uppi með afleiðingar tíu ára fjársveltis, ekki hvað síst í vegakerfinu. Þess vegna veldur það mér töluverðum vonbrigðum þegar við horfum á þá stöðu núna að eftir þessa fordæmalausu aukningu ríkisútgjalda á undanförnum fimm, sex árum hafi samt ekki skapast svigrúm til að fjármagna nauðsynlegar vegaframkvæmdir í gegnum ríkissjóð. Við horfum sérstaklega upp á þau köldu skilaboð til suðvesturhornsins að hér fáist ekki fé til nauðsynlegra vegaframkvæmda sem hafa setið á hakanum undangenginn áratug öðruvísi en að greitt sé aukalega fyrir. Það eru auðvitað skattahækkanir þó að það kallist því huggulega nafni veggjöld.

Það veldur mér eiginlega enn meiri vonbrigðum þegar maður horfir síðan upp á það virðingarleysi gagnvart Alþingi að inn í umræðuna þegar komin er áætlun um verulegar framkvæmdir og álögur á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Það er talað um þverpólitíska sátt um þá nálgun en minni hlutinn á Alþingi hefur ekki fengið að sjá nokkurn skapaðan hlut um þau áform. Raunar spyr maður, úr því að það átti að vera búið að kynna þetta, hvort sáttin sé jafn góð innan ríkisstjórnarflokkanna og af er látið. Ég verð að játa að mér þykir þetta lítill metnaður og hefði viljað sjá í þessu fjárlagafrumvarpi (Forseti hringir.) talsvert meiri áherslu á fjárfestingar en ekki rekstrarútgjöld aukin jafn mikið og raun ber vitni og þá að þeim væri beint sérstaklega til samgöngumála svo við gætum forðast þær skattahækkanir sem ráðherra boðar.

(Forseti (HHG): Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að virða ræðutíma.)