150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þá ágætu ábendingu. Hv. þingmaður segist vera í þeim hópi sem efast. Ég hlustaði á hv. þingmann og samflokksmenn hans í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra fyrir tveimur dögum þar sem hann talaði um stöðnun, afturhald og ég veit ekki hvað og hvað. Svo hefur hann komið hingað reglulega og gagnrýnt mikil útgjöld ríkisins. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að útgjöld og útgjöld eru ekki það sama. Útgjöld til fjárfestinga eru nauðsynleg þegar við erum stödd á þeim stað í efnahagsmálunum sem við erum stödd. Ég er hins vegar ósammála hv. þingmanni um að útgjöld síðustu ára til velferðarmála hafi verið óþarfi og að við höfum gengið of langt. Ég held að það hafi verið nauðsynlegt. Ég held að það sé verið að nota fjármuni þar skynsamlega og 78 milljarða fjárfesting á næsta ári er umtalsvert meira en á síðasta ári. Það munar 27 milljörðum. Þegar hv. þingmaður kemur hingað og segist vera í þeim hópi sem efast og talar um afturhald og stöðnun hjá ríkisstjórnarflokkunum ætti hann kannski að lesa gögnin og velta fyrir sér hvaða tölu hann hefði viljað sjá. Hefði hann verið ánægður með 28 milljarða? Ég sá í tillögum minni hlutans við fjárlögin í fyrra að menn voru að toppa hver annan með 50 milljónum og 100 milljónum. Hvaða tala er það sem hv. þingmaður vildi sjá án þess að raska afkomu ríkissjóðs, án þess að hafa neikvæð áhrif á peningastefnu og álit heimsaðila um það hvernig efnahagsmálum er háttað á Íslandi?

Hvaða tölu áttum við að auka ef ekki voru 27 milljarðar og 78 milljarðar til framkvæmda og 53% aukning til samgöngumála á tveimur árum? Er það stöðnun? Er það líka merki um afturhald og stöðnun þegar menn hugsa út fyrir boxið á grundvelli umræðu um samgönguáætlun í þinginu, m.a. með flokksmönnum hv. þingmanns við stjórn Reykjavíkurborgar, þar sem þeir segja: Við erum tilbúin til þess? (Forseti hringir.) Er það samgönguráðherra sem þarf að tala við hvern einasta þingmann prívat og persónulega eða er hægt að eiga samskipti við flokka án þess að hver einstakur þingmaður komi hingað upp og segi að það sé ekkert samráð?