150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er naumast að ráðherra hefur sviðið gagnrýnin. Hann hlustar þá kannski á svarið. Það hefur verið flutt í þessum sal áður. Ég hefði viljað sjá 30–50 milljarða aukningu í fjárfestingum frá því sem sett er fram af ríkisstjórninni í þessu fjárlagafrumvarpi. Ég hef nefnt það margoft og sagt: Það er verið að belgja út báknið á vakt þessarar ríkisstjórnar með fordæmalausum hætti og áfram verið að svelta fjárfestingar. Svo tala menn um að það sé verið að lækka skatta en læðast með skattahækkanir á bak við og kalla þær einhverju öðru nafni.

Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi talað við marga um þetta mál en hann hefur ekki talað við minni hlutann hér í þessum sal, ekki með einu orði, og ekki kynnt með neinum hætti opinberlega þau áform sem nú eru komin fram. Hæstv. ráðherra kom hins vegar í vetur með samgönguáætlun sem lagði ekkert til suðvesturhornsins og sagði: Ja, þetta er hálfsnautlegt hjá okkur en við ætlum að koma með nýja samgönguáætlun í haust þar sem við tökum á þessu. Áður en hún birtist er búið að segja okkur frá því nú þegar að fjármögnunarleiðin fyrir höfuðborgarsvæðið verði skattahækkun á íbúa höfuðborgarsvæðisins, notendur þessa kerfis.

Og það sem ekki hefur verið sagt enn þá en kemur væntanlega í beinu framhaldi er að íbúar Reykjanesbæjar og Árborgar og nágrannar þurfa að borga fyrir tvöföldun á Reykjanesbrautinni og Suðurlandsveginum og nýja Ölfusárbrú með veggjöldum. Skilaboðin frá þessari ríkisstjórn, frá þessum hæstv. samgönguráðherra, til íbúa suðvesturhornsins eru: Þið verðið að borga aukalega ef þið eigið að fá einhverjar samgöngubætur.

Það tel ég engan sérstakan metnað. Það er einfaldlega staðreynd að fjárfestingarstig hins opinbera er enn þá undir meðaltali. Það vantar 400 milljarða í opinberar fjárfestingar til að vinna upp slaka undangenginna tíu ára og þessi ríkisstjórn er bara ekkert að gera til að vinna upp þann halla nema að auka álögur og leggja sértæk veggjöld á íbúa suðvesturhornsins.