150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Nei, ég kippi mér ekkert upp við gagnrýni. Ég bendi bara á að hv. þingmaður var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og kallaði ítrekað eftir vaxtalækkunum. Hefur hv. þingmaður tekið eftir því að vaxtastigið í landinu er það lægsta frá því að þessi peningastefna var tekin upp? Heldur hv. þingmaður að það geti verið vegna efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar sem vinnur í takt við peningastefnu? Og getur verið að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að lífskjarasamningunum hafi áorkað það að við séum í stöðugri vaxtalækkun? (ÞorstV: Þetta er ekki …) Heldur hv. þingmaður að það gæti verið? Hefur hv. þingmaður séð það samspil áður í niðursveiflu á Íslandi sem er að gerast núna? Nei, hv. þingmaður hefur ekki séð það. Þess vegna er ósanngjarnt af honum að koma hingað upp og æpa með þessum hætti.

Hann segir: Já, ég hefði gjarnan viljað sjá 30–50 milljarða útgjaldaaukningu. Hann vill ekki breyta afkomumarkmiðum, hann vill skila meiri afgangi. (ÞorstV: Það er ekki rétt.) Er það ekki rétt? Það er þá nýtt. Það hefur verið tónninn síðustu tvö árin, kannski hefur hann áttað sig á því að það er akkúrat núna sem við eigum ekki að skila miklum afgangi, í niðursveiflu, og þess vegna getum við aukið útgjöldin til fjárfestinga. Ef hv. þingmaður ætlar að auka þau um 30–50 milljarða ætlar hann að skera niður og þá skal hv. þingmaður koma hingað upp og segja á hverjum hann ætlar að byrja niðurskurðinn. Ég get svo sem spáð fyrir um hvar þar verður en við höfum bara ekki nógu margar mínútur. Það gæti samt orðið skemmtilegt samtal.

Hv. þingmaður kemur hingað og talar um stöðnun og afturhald, enn og aftur, og framsóknarflokkana þrjá og þykist vera af frjálslyndum framtíðarflokki en hann skilur ekki einu sinni að við erum að fara í orkuskipti þar sem eldsneytisgjöldin eru að hverfa, þar sem við erum að fara inn í allt aðra tíma og notendagjöld munu taka við. Ég stend ekki hér og heimta hærri álögur á bílaeigendur. Ég segi bara: Ef við getum gert hlutina öðruvísi og framkvæmt hraðar með ávinningi fyrir fólkið (Forseti hringir.) í landinu og loftslagsmálin, hv. þingmaður — það getur vel verið að Viðreisn sé ekki komin þangað nema í orði — en ef við getum gert allt þetta á sama tíma, aukið framkvæmdir stórlega um leið og vextir lækka og efnahagsmálin blómstra erum við á réttum stað, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson.