150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir framsögu hans um samgöngumál í dag. En hvað er það sem brennur á manni í samgöngumálum? Jú, það er þjóðvegur í þéttbýli, þ.e. þegar maður situr fastur á leið í vinnu á hverjum einasta morgni, leið sem maður getur yfirleitt keyrt á innan við 15 mínútum en tekur allt að einn og hálfan til tvo tíma að fara kvölds og morgna. Ég get ekki annað en hugsað: Hvaða snillingur fann upp þetta vegakerfi? Var hann svo mikill snillingur að hann gleymdi bara að tengja þennan þjóðveg við Seltjarnarnes, setja hringtorg þar, eða býr hann á Seltjarnarnesi og hlær þar að heimskunni allri, að þurfa að fara í gegnum öll sveitarfélög á landinu til að komast vestur á firði?

Þegar ég flutti til Hafnarfjarðar fyrir nær 40 árum var á teikniborðinu ofanbyggðavegur. Ofanbyggðavegur er vegur sem flestallir erlendis og aðrir sem hafa einhverja hugsun hafa komið á, vegur þar sem keyrt er ofan byggðar og svo niður í það sveitarfélag eða þann bæ sem menn vilja fara í, eins og ef ætti að fara í Kópavog, þá færi maður bara niður í Kópavog. En að þurfa að keyra í gegnum öll sveitarfélögin til að komast vestur á firði er fáránlegt.

En hvað á að gera? Nei, það á ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Talað er um borgarlínu. Hún bjargar ekki neinu. Það hefur verið talað um hana í fjölda ára og það breytir engu. Biðin bara eykst. Stíflan stækkar, ekkert skeður.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig væri að fara að hrista upp í þessu og taka upp ofanbyggðaveg og koma honum á koppinn?