150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri nú í stuttu máli grein fyrir helstu atriðum frumvarps til fjárlaga fyrir málefnasvið sem falla undir utanríkisráðuneytið. Sú breyting hefur orðið á að þau eru nú tvö í stað eins áður, málefnasvið 4 Utanríkismál og málefnasvið 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna. Helstu verkefni sem falla undir þessi málefnasvið eru annars vegar öryggis- og varnarmál, utanríkisviðskipti, borgaraþjónusta og þjóðaréttur og hins vegar þróunarsamvinna og mannúðarmál. Fjárlagafrumvarpið sem hér er til umfjöllunar byggir á fimm ára fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti sl. vor. Frumvarpið gerir ráð fyrir að heildarframlög til utanríkisráðuneytisins hækki samtals um tæplega 1,1 milljarð kr. og verði samtals rúmlega 18 milljarðar kr. Þar af nema fjárheimildir til utanríkismála tveimur þriðju af heildarfjárheimildum og til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu þriðjungi.

Ég sný mér fyrst að málefnasviði 4 Utanríkismálum. Heildarfjárheimildir til málefnasviðsins eru 12,5 milljarðar kr. á næsta ári og aukast um 930 millj. kr. að raungildi. Á komandi ári verður lögð áhersla á virka þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu þar sem helstu verkefnin verða að standa vörð um þjóðarétt með virkri þátttöku á vettvangi alþjóðastofnana, formennsku í Norðurskautsráðinu og framboði til UNESCO. Starfsemi utanríkisþjónustu sem varðar utanríkisviðskipti og ætlað er að styrkja stoðir útflutnings með fjölgun fríverslunarsamninga samhliða öflugri hagsmunagæslu innan EES og nánu samstarfi við atvinnulífið fellur sömuleiðis undir þennan málaflokk. Heildarframlög til málaflokksins Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála hækka um 123 milljónir á milli ára.

Af öðrum helstu verkefnum sem liggja fyrir á næsta ári má nefna undirbúning fyrir formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins og áframhaldandi hagsmunagæslu vegna útgöngu Bretlands úr ESB. Áfram verður unnið að bættri framkvæmd EES-samningsins í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar með því að styrkja stöðu fagráðuneyta og sendiráðsins í Brussel. Undir málaflokkinn Utanríkisviðskipti falla einungis framlög til Íslandsstofu sem nema 842 millj. kr. en önnur útgjöld vegna utanríkisviðskipta falla undir málaflokkinn Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.

Framlög til öryggis- og varnarmála aukast um 405,5 millj. kr. þegar litið er fram hjá verðlagsbreytingum. 300 millj. kr. framlag verður veitt til að sinna uppsafnaðri viðhaldsþörf varnarmannvirkja sem eru að verða dragbítur á getu okkar til að standa við skuldbindingar okkar í öryggis- og varnarsamstarfinu.

Loks eru aukaleg samningsbundin framlög til fjölþjóðastofnana sem er sérstakur málaflokkur upp á 582 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég sný mér nú að málefnasviði 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna sem er nýtt málefnasvið í samræmi við áherslur ríkisstjórnar á þróunarsamvinnu og aukin fjárframlög til málefnisins sem eru fyrirséð á næstu árum. Heildarfjárhæð málefnasviðsins fer úr 5,8 milljörðum kr. í 5,6 milljarða kr.

Skýrist breytingin að mestu af þrennu. Í fyrsta lagi lækka framlögin um tæplega 450 millj. kr. þar sem gert er ráð fyrir að stærri hluti útgjalda sem teljast til opinberrar þróunarsamvinnu falli til á öðrum málefnasviðum en áður. Í öðru lagi vegur þungt lækkun þjóðartekna á milli ára en fjárheimildir til málaflokksins miðast við ákveðið hlutfall af þjóðartekjum og í þriðja og síðasta lagi voru 300 millj. kr. millifærðar á málefnasvið 4 Utanríkismál við þinglega meðferð fjármálaáætlunar í vor.

Aftur á móti hækka fjárheimildir um tæplega 670 millj. kr. í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar um hækkun framlaga til opinberrar þróunarsamvinnu. Áfram er þó gert ráð fyrir að hlutfall framlaga til þróunarsamvinnu verði komið í 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2022 í samræmi við stefnu stjórnvalda um hækkun á framlögum til þróunarsamvinnu. Engin breyting hefur orðið þar á.

Mannréttindi, kynjajafnrétti og sjálfbær nýting náttúruauðlinda með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa, auðlindir hafsins og endurheimt landgæða verður í forgrunni í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni þar sem sérþekking Íslands nýtist sem best í baráttunni gegn fátækt. Nýstofnaður samstarfssjóður við atvinnulífið mun gegna lykilhlutverki og styrkir úr sjóðnum eru ætlaðir samstarfsverkefnum fyrirtækja sem stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum hagvexti í fátækum þróunarríkjum.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum varðandi þau málefnasvið sem heyra undir mig sem utanríkisráðherra. Ég vil að lokum segja frá því að í utanríkisráðuneytinu er hafin vinna við að fylgja eftir aukinni áherslu á málefni þróunarsamvinnu sem birtist í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til fimm ára og nýrri framsetningu á málefnasviðum utanríkisráðuneytisins. Í þessu felst að þróunarsamvinnan verður færð nær kjarna utanríkisstefnunnar og skipulag skrifstofu ráðuneytisins endurskoðað til að endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar á alþjóðlega þróunarsamvinnu. Samhliða nýju skipulagi verður nafni ráðuneytisins breytt í utanríkis- og þróunarmálaráðuneyti og mun sú breyting taka gildi um næstu áramót.