150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Virðulegi forseti. Fyrr í þessum mánuði sótti Ísland heim varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence. Það gerist ekki á hverjum degi að forsetar eða varaforsetar Bandaríkjanna leggi leið sína hingað. Ég tel heimsókn hans hafa verið mjög merka. Það sem gerðist einna helst í þeirri heimsókn og mætti kannski telja fréttnæmt var að fyrir utan Höfða ræddi hann opinskátt, vil ég leyfa mér að segja, um afstöðu Íslendinga til þess samstarfsverkefnis sem kynnt hefur verið af hálfu kínverskra stjórnvalda undir kjörorðinu Belti og braut og mátti skilja varaforsetann á þann veg að hann lýsti yfir ánægju með að Íslendingar hefðu afþakkað þátttöku í því verkefni, ef rétt var skilið. Reyndar kom fram í máli hæstv. ráðherra og að einhverju leyti í máli hæstv. forsætisráðherra að varaforsetinn hefði ekki verið alveg nákvæmur í því sem hann lét sér um munn fara fyrir utan Höfða.

Þær spurningar sem vakna í því sambandi eru eftirfarandi, og aðalspurningin kannski þessi: Hver er stefna ríkisstjórnar Íslands gagnvart þessu frumkvæði kínverskra stjórnvalda? Og síðan: Hvaða athuganir hafa farið fram á verkefninu, þar á meðal hver yrði kostnaður af þátttöku Íslands?