150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég sé svo sem enga ástæðu til að vera í einhverjum metingi um hver sé mesti Evrópuflokkurinn en ég get þó staðfest að Samfylkingin vill fara alla leið inn í Evrópusambandið og Viðreisn vill fara alla leið, þannig að ég held að við séum nokkuð jafnsett hvað það varðar. Mér finnst ekki sannfærandi þetta tal ráðherra um tækifærin, en ég spyr hvort það sé ekki rétt að Norðmenn — við fáum vissulega fellda niður tolla af ýmsum vörum núna til Bretlands þar til Bretar ákveða annað — fá betri kjör en þeir hafa haft áður á sjófrystum fiski sem gæti auðvitað ógnað samkeppnisstöðu okkar.

Mig langar svo að lokum, af því að ég átti orðastað við hæstv. forsætisráðherra í morgun og lét óánægju mína í ljós vegna lækkandi framlaga til þróunarsamvinnu. Henni er líka komið á framfæri við hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst þetta vesaldómur hjá þjóð sem þáði sjálf þróunaraðstoð langt fram á áttunda áratuginn og er ein sú ríkasta í heiminum. Á meðan Svíar láta 1,1% af þjóðarframleiðslu, Norðmenn 1,0, Danmörk 0,8 og Finnar 0,55 köllum við það í fjárlagafrumvarpinu, þegar harðnar aðeins á dalnum hér, að skapast hafi svigrúm til þess að taka 300 milljónir af sveltandi börnum sem eiga sér enga möguleika og færa í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, sem kann að vera nauðsynleg. En þá skulu menn hafa manndóm í sér til að fara í aðra sjóði frekar en að taka af þessu blessaða fólki. Ég bendi á af því að ráðherrum ríkisstjórnarinnar er svona umhugað um loftslagsaðgerðir og hamfarahlýnunina, að hún mun bitna fyrst og harðast á akkúrat því fólki sem verið er að taka peninga af.