150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á hvað hv. þingmaður er að vísa til þegar hann talar um Norðmenn og ég held að hann þurfi að skýra mál sitt hvað það varðar. (LE: Það var minnisblað frá ráðuneytinu um það.) Þeir samningar sem við höfum verið að gera við Breta, og liggja núna fyrir í þinginu gera ráð fyrir að við fáum óbreyttan markaðsaðgang frá því sem við höfum haft fram til þessa, þó að þeir fari út án samnings. Það liggur alveg fyrir.

Skilgreindir voru þrír meginþættir þegar kom að hagsmunagæslu okkar varðandi Brexit. Það voru réttindi borgaranna. Þau eru tryggð, m.a. réttindi námsmanna. Það voru flugsamgöngur. Við vorum langfyrstir til að ganga frá þeim, langfyrstir. Og sömuleiðis varðandi vöruviðskipti. Ég veit því ekki hvert hv. þingmaður er að fara með þessum orðum og hef bara aldrei heyrt það.

Síðan hvað varðar framlög til þróunarmála er það auðvitað eitthvað sem við getum alltaf gert betur í. Ég vil hvetja hv. þingmenn að skoða hvað búið er að leggja mikið í og hvað búið er að hækka þetta mikið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Mér er til efs, í það minnsta þegar kemur að prósentum, að við séum með jafn mikla hækkun á nokkru einstöku málefnasviði. En það má alltaf gera betur án nokkurs vafa. Hér er almennt í þessum kallað sal kallað eftir fjármunum í alla málaflokka, nokkurn veginn alla, ég man í fljótu bragði ekki neinum málaflokki þar sem menn kalla ekki eftir auknum fjárframlögum og svo sannarlega man ég ekki eftir þeim málaflokki sem Samfylkingin vill ekki bæta í. En það væri áhugavert að sjá ef menn eru með leiðir til þess að færa úr einhverjum málaflokkum yfir í þróunarsamvinnu. Það væri auðvitað bara hið besta mál.