150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Varðandi aukninguna til öryggis- og varnarmála er hún í samræmi við þjóðaröryggisstefnu sem felur í sér að tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Frá brotthvarfi varnarliðsins árið 2006 hafa íslensk stjórnvöld axlað ábyrgð á rekstri loftvarnakerfis og annarra varnarmannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Íslandi og bera því ábyrgð á að tryggja nauðsynlegt viðhald og endurnýjun mannvirkja og búnaðar og um leið örugga starfsemi varnartengdra verkefna. Íslensk stjórnvöld bera þess vegna ábyrgð á að tryggja þetta nauðsynlega viðhald.

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að við höldum mannréttindum hátt á lofti í utanríkisstefnu okkar og það höfum við svo sannarlega gert. Ég held að þess sé ekki hægt að finna dæmi á öðrum tímum að það hafi verið jafn áberandi. Ber þá auðvitað hæst setu okkar í mannréttindaráðinu. Ég er afskaplega stoltur af því hvernig við höfum gengið fram þar, við höfum bæði mikið verið í umræðunni varðandi Filippseyjar og ef ekki hefði verið fyrir frumkvæði okkar Íslendinga sömuleiðis hefðu t.d. málefni Sádi-Arabíu aldrei verið tekin fyrir með þeim hætti sem gert hefur verið í mannréttindaráðinu. Við leggjum aukna áhersla á þetta á fleiri sviðum, m.a. í þróunarsamvinnunni, og ég tel það afskaplega mikilvægt.

Síðan er mikilvægt að við stöndum vel að þeim verkefnum sem okkur eru falin og hv. þingmaður vísaði til mjög mikilvægs máls (Forseti hringir.) sem er Evrópuráðið.