150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:37]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og tek undir með honum þegar hann talar um góðan árangur okkar og hvernig við höfum nýtt sæti okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Það er til fyrirmyndar og eftir því hefur verið tekið á alþjóðavettvangi. Ég er sjálf stolt af framgöngu okkar þar.

Mig langar líka til að draga fram þær áherslur sem ég fagna í fjárlagafrumvarpinu þegar kemur að utanríkismálunum sem eru áframhaldandi áhersla á virka þátttöku í alþjóðasamvinnu, formennska í Norðurskautsráðinu, hækkun til Uppbyggingarsjóðs EES og framboðs til UNESCO. Þetta eru allt fínar og góðar áherslur ásamt mjög góðum áherslum á mannréttindi, jafnrétti og sjálfbæra þróun.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra í seinna andsvari mínu um stefnuna um öflugri hagsmunagæslu innan EES og í nánu samstarfi við atvinnulífið. Hér er staðhæft að auka skuli hagsmunagæslu í Brussel og tryggja virkari þátttöku Íslands í mótun EES-löggjafarinnar. Það er vel. Um þetta hefur verið talað frá árinu 1994, ég held að Halldór Ásgrímsson hafi nefnt þetta nokkrum mánuðum eftir að við samþykktum í þessum sal að vera aðilar að EES-samningnum. Ég held að þetta sé eðlilegt framhald af þeirri umræðu sem við áttum í þinginu um orkupakkann og einmitt í tengslum við EES-skýrsluna sem kemur bráðum frá ráðuneytinu um samninginn. Það er óljóst í fjárlagafrumvarpinu hvernig eigi að útfæra þessa hagsmunagæslu. Um hvað er verið að tala? Um hversu marga fulltrúa á að fjölga og á hvaða svið EES-samningsins ætlum við að einblína og beita okkur á? Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli fyrir hagsmunagæslu okkar af því að við höfum litla utanríkisþjónustu (Forseti hringir.) og kannski úr minni fjármunum að spila en aðrar þjóðir og þess vegna verða að vera skýrar línur þegar kemur að þessu.