150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni sömuleiðis fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég hygg samt að hafi þetta verið utanríkisráðherra 1994 hafi það verið Jón Baldvin Hannibalsson (Gripið fram í.) en það er aukaatriði. Þegar ég kom að málum var eitt af mínum fyrstu verkum að setja vinnu af stað og koma með tillögu um að skerpa á hagsmunagæslunni. Það kom út skýrsla sem heitir „Gengið til góðs“ sem við höfum unnið eftir og síðan kemur skýrsla Björns Bjarnasonar og hans hóps fljótlega. Til að gera langa sögu stutta vorum við með það fyrirkomulag lengi vel að fulltrúar allra fagráðuneyta voru í Brussel. Þegar sótt var um aðild að Evrópusambandinu var það tekið niður en hefur síðan verið endurvakið. Núna eru fulltrúar úr forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, tveir fulltrúar úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu í Brussel. Það hefur verið ákveðið að senda fulltrúa heilbrigðisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og þá eru samgönguráðuneytið og félagsmálaráðuneytið að skoða möguleika á að senda fulltrúa sína til Brussel. Þetta hefur verið í gangi í rauninni nokkuð lengi.

Síðan eru fleiri þættir. Við höfum verið með EES-gagnagrunninn sem er mikilvægt tæki og svo sannarlega hefur þingið líka tekið virkari þátt í þessu en áður og það er líka eldri saga sem ég næ ekki að fara yfir á nokkrum sekúndum. Þetta er mál sem við þurfum að setja enn meiri áherslu á. Eitt er fjármunir og annað er vinnulag. Það skiptir öllu máli að lögð sé áhersla á að við tökum á þessum málum sérstaklega á fyrstu stigum þegar við getum haft hvað mest áhrif. Þá skiptir líka máli að hagsmunaaðilar, stjórnkerfið og þingið séu meðvituð um hvaða mál eru í farvegi sem við þurfum að líta til. (Forseti hringir.) Ég hef sjálfur vakið athygli á málum, bæði gagnvart Evrópusambandinu og öðru, sem við getum ekki samþykkt nema það sé alveg skýrt hvernig þau liggja.

En ég hef því miður, virðulegur forseti, ekki tíma til að fara yfir það núna.