150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:42]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Flest af því sem kemur fram í þessum málaflokki er áframhald frá fyrri árum nema auðvitað niðurfellingar á tímabundnum verkefnum og álíka. Það eru samt fjögur atriði sem mig langar að forvitnast um, af því að þau standa svolítið út úr. Fyrsta atriðið snýr að uppbyggingarsjóði EES þar sem framlög okkar eiga að aukast um 582 millj. kr. Það er að vísu villa á bls. 177 hvað þetta varðar en ég held að þetta sé rétt tala. Mig langar að skilja betur hvernig sú verulega hækkun til uppbyggingarsjóðsins kemur til. Varð einhver breyting á reikniformúlunni góðu sem Ísland hefur notið góðs af mjög lengi eða býr eitthvað annað að baki? Það er kannski rétt að ég taki fram að ég sé ekkert eftir þessum peningum í sjóðinn, þetta er mjög góður sjóður sem hefur skilað mjög miklum árangri.

Annað atriðið snýr að framboði okkar til UNESCO sem er ágætisverkefni en mér finnst skýringin heldur rýr á því hvernig kostnaðurinn kemur til og svo hvaða áframhaldandi kostnaður fylgir á næstu árum ef framboðið heppnast.

Þriðja atriðið er um varnarmálin. Þar er frekar mikil hækkun á ferðinni sem er mikið til vel útskýrð en það vantar samt skýringu á því hversu mikið framlag kemur til Íslands úr mannvirkjasjóði NATO og hvort þeir fjármunir nái yfir nýju varnartengdu mannvirkin. Nú er ljóst að það er ákveðin pressa á okkur að auka viðleitni okkar í varnarmálum og þá er ágætt að vita hverjir borga fyrir þá viðleitni. Það mun auðvitað ráða einhverju um vilja þingsins til að styðja við slíkan trumbuslátt.

Svo vil ég í lokin spyrjast fyrir um þau fjölmörgu tækifæri sem hæstv. ráðherra hefur talað um í sambandi við Brexit og hv. þm. Logi Einarsson spurði um áðan. Mig langar að vita úr því að við erum að draga úr hagsmunagæslu okkar gagnvart Brexit núna, sem er kannski eðlilegt, (Forseti hringir.) hvort tækifærin hafi raungerst. Þá er ég sérstaklega að hugsa til þess að í nýjum væntanlegum samningi okkar við Breta er ekki fjallað um þjónustuviðskipti en þau eru mikilvægur hluti af viðskiptum við Breta.