150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta öðruvísi en það er. Við getum ekki farið að gera viðskiptasamning eða semja um framtíðarviðskipti við Breta fyrr en þeir eru komnir út úr ESB. Það er bara þannig. Allt sem við höfum gert er ekki aðeins í samvinnu við Breta heldur sömuleiðis við EFTA-ríkin og Evrópusambandið almennt. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður verður að sætta sig við það að við getum ekki gert samning, framtíðarsamning við Breta fyrr en þeir komnir út úr Evrópusambandinu. Hins vegar gátum við gert þessar ráðstafanir, vegna þess að það eru líkur á því að þeir fari út án samnings. Ef þeir hefðu fengið leyfi til að semja um framtíðarviðskipti strax hefðum við auðvitað gengið í það en við gengum frá þessum þremur meginþáttum. Við höfum einnig gert ráðstafanir af því að Evrópusambandið hefur gert ákveðnar ráðstafanir sem tengjast EES og við ætlum að taka þær inn í löggjöf okkar. En svona er málið.

Virðulegi forseti. Varðandi UNESCO er heildarkostnaðurinn vegna framboðsins og setu í framkvæmdastjórn UNESCO áætlaður 422 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir kostnaði við eitt stöðugildi kosningastjóra í utanríkisráðuneytinu og starfsnema í sendiráðinu í París í 2–3 ár á tímabilinu 2019–2021 þegar kosningabaráttan fer fram, kostnaði við eitt stöðugildi … starfsmanns í París og allt að fjögur stöðugildi í ráðuneytum, þar af tvö í utanríkisráðuneytinu og tvö í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, í fjögur ár á meðan á stjórnarsetu stendur, árin 2021–2025. Við þetta bætist kostnaður við gerð framboðsgagna, ferðakostnaður og leiga á skrifstofuhúsnæði. Kostnaður skiptist með eftirfarandi hætti á tímabil: 14,5 millj. kr. á yfirstandandi ári, 42 millj. kr. á tímabilinu 2020–2021, 81 millj. kr. á meðan setu í framkvæmdastjórn stendur 2022–2025. Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.