150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra innlegg hans í umræðuna. Hæstv. ráðherra hefur komið ágætlega inn á fjölmörg málefni, eins og varnarsamstarfið, þjóðaröryggismálin og þróunarsamvinnu, Brexit o.fl., þar sem ég ætlaði að bera niður en ég vil þá spyrja frekar út í formennsku okkar í Norðurskautsráðinu fyrir utan það sem fram hefur komið, hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir kom inn á það í samhengi við annað. Ég held að hæstv. ráðherra hafi orðað það ágætlega þegar við tókum við fyrr á þessu ári að hlutverk okkar í Norðurskautsráðinu hefur líklega sjaldan eða aldrei verið brýnna en einmitt nú með tilliti til málefna norðurslóða og ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra. Nú erum við að setja aukreitis fjárheimild, 77 millj. kr., sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og samtals 142 milljónir á næsta ári og líklega er þetta á þessu tímabili, 2018–2021, um 300 milljónir, ekki fjármunir til þess að hafa verulegar áhyggjur af í öllu heildarsamhenginu. Hins vegar vil ég biðja hæstv. utanríkisráðherra svona í upphafi formennskuáætlunarinnnar, það er auðvitað ekki komin full reynsla á eitt eða neitt í þessu, undir yfirskriftinni „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“, að segja hvað hann sér fyrir sér, fyrir utan þá athygli og þau áhrif sem við fáum, rödd okkar á alþjóðavettvangi og allt það, hvernig við munum helst geta nýtt þetta mikilvæga tækifæri sem við höfum með formennskunni.