150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður spyr grunnspurninga, hvernig formennskan geti nýst okkur. Við lögðum áherslu á málefni hafsins, loftslagsmál og grænar lausnir í orkuframleiðslu og fólkið á norðurslóðum og styrkingu samfélaga og að styrkja Norðurskautsráðið, sem ég tel vera mikilvægt. Allt er þetta í raun undir stóru hugmyndinni um að við viljum hafa þetta sem friðsamt svæði áfram og við viljum sömuleiðis sjá sjálfbærni, ekki bara umhverfislega heldur líka efnahagslega og félagslega. Það er í rauninni stærsta verkefnið núna, því að það er orðin aukin áhersla á norðurskautið, að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða og að þarna muni gilda alþjóðalög í nánustu og fjarlægustu framtíð.

Það sem ég vona hins vegar að formennskan muni gera er að hún styrki t.d. þær stofnanir sem eru norður á Akureyri sem sinna störfum undir hatti Norðurskautsráðsins og að við eflum þekkingu okkar og vitund hvað þetta mikilvæga svæði varðar. Það er afskaplega mikilvægt að t.d. þingheimur sé meðvitaður um þær breytingar sem fram undan eru. Mér finnst skýrast að taka það dæmi, þó að það sé bara einn þáttur, varðandi siglingaleiðina, að þegar hún styttist um 40% milli Asíu og Evrópu hefur það gríðarlegar breytingar í för með sér. Ógnir, svo sannarlega. Eitt af því sem við þurfum að horfa til er björgun og leit. Við sáum t.d. í Noregi fyrir nokkru síðan að það mátti litlu muna að illa færi því að þó svo að siglingaleiðin hafi ekki opnast, eins og menn eiga von á, er umferðin gríðarlega mikil, miklu meiri (Forseti hringir.) en menn myndu ætla, en svo sannarlega eru tækifæri líka.