150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Hv. þingmaður vísar einmitt til þess og spyr: Hvað erum við að tala um þegar til stykkisins kemur? Það hljómar kannski ekkert mjög nákvæmt en stóra málið er að vekja athygli. Það hef ég gert í störfum mínum frá því að ég tók við og ég held að á um 170 tvíhliða fundum hafi ég alltaf tekið þetta mál upp því að mér fannst t.d. að þau lönd sem við berum okkur hvað mest saman við og eru okkar helstu bandamenn væru ekki mjög meðvituð um hvað væri að gerast þarna. Það er eitt að þau lönd hafi haldið uppi alþjóðalögum og lagt áherslu á að þau séu virt og sömuleiðis að við byggjum samskipti okkar á þeim gildum, en bara það að þau séu meðvituð um mikilvægi svæðisins og hvað það skiptir miklu máli að þetta sé virt er gríðarlega mikilvægt af því að það er ekki sjálfgefið. Við tökum því sem sjálfgefnu en það er það ekki. Hins vegar, þó að þetta mál snúi að utanríkismálum, þá snýr þetta líka í raun að þjóðfélaginu, að við leggjum áherslu á það og miklu víðar en í utanríkismálunum — ég er hér að vísa til umhverfisstofnana, menntastofnana, menningarstofnana — að á þessu svæði eru að verða mjög miklar breytingar og við þurfum að taka mið af því í öllum störfum okkar.

Síðan er alveg klárt mál í mínum huga að við þurfum að líta til okkar helstu þjóðaröryggisógnar sem eru umhverfismálin. Með aukinni umferð eru auknar líkur á t.d. umhverfisslysum, líka slysum á fólki, m.a. út af farþegaskipum og öðru slíku, og við þurfum að líta til leitar og björgunar. Ég sé ekkert annað svæði á þessu stóra svæði, Norður-Atlantshafinu, (Forseti hringir.) sem getur rúmað slíkt en Norðaustur-Ísland. Hér þurfum við að hafa eins hraðar hendur og mögulegt er því að þetta er að koma, er í rauninni komið og við Íslendingar berum ábyrgð.