150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu hans. Ég er feginn því að hann hefur áttað sig á að Viðreisn er Evrópusinnaður flokkur og þakka honum fyrir að setja okkur í fyrsta sæti í þeim efnum.

Varðandi tækifærin í Brexit, þar sem ráðherrann minntist á að talsmenn okkar flokks hefðu líka lýst því yfir að mikil tækifæri væru fólgin í Brexit, þá skal ég ekki andmæla hæstv. ráðherra um að einhver ummæli kunni að hafa fallið í þá veru. En ég get þá a.m.k. fullvissað hann um að menn hafa þegar áttað sig á að það var ekki svo og hafa að þessu leyti snúið frá villu síns vegar því að tækifærin eru ekki á hverju strái.

Á fundi hjá Félagi atvinnurekenda 4. september sl. talaði aðalhagfræðingur Seðlabankans, Þórarinn G. Pétursson, um efnahagsmál og talaði þar m.a. um að hagvaxtarhorfur hafi versnað upp á síðkastið og veruleg hætta á ofmati í hagvaxtarhorfum fyrir Ísland. Hann nefndi sérstaklega að hætt væri við því að verg landsframleiðsla myndi dragast saman um hálft prósent á árunum 2019–2021, einmitt vegna Brexit. Ekki eru tækifæri, a.m.k. fyrir íslenskt efnahagslíf, fólgin í því.

Svo að ég spyrji nú að einhverju: Í lok kaflans sem fjallar um utanríkismál í frumvarpinu er rætt um samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs og lýkur umfjölluninni á þessum merkilegu orðum: (Forseti hringir.)

„Engin stefnumótun hefur átt sér stað fyrir málaflokkinn og því hafa hvorki markmið né aðgerðir verið sett fyrir hann.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í niðurlag kaflans.