150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti máli að við áttum okkur á hvað er á ferðinni þegar menn tala um hugsanlega hættu þegar kemur að Brexit varðandi alþjóðlega hagkerfið, þ.e. ef niðurstaðan verður sú að viðskiptahindranir verða í kjölfar Brexit. Það mun koma illa niður á öllum, m.a. okkur. Alveg eins og tollastríð Kína og Bandaríkjanna kemur illa niður á öllum, líka Íslendingum, þó að ekki sé um beina hagsmuni að ræða hvað það varðar. Nú erum við að sjá víðs vegar um heiminn, og full ástæða er til að hafa áhyggjur af því, meiri tilhneigingu til verndarstefnu en verið hefur. Það mun koma niður á okkur Íslendingum. Það mun þýða að það verður minni hagvöxtur.

Ef Evrópusambandið og Bretar ná saman um viðskiptasamning og ekki verða viðskiptahindranir eftir Brexit, þá mun það ekki hafa neikvæð áhrif á efnahagslífið. Það þarf tvo til og ég ætla ekki að fara að reyna að leysa úr þeim vanda. En hv. þingmenn verða að leggja þessa hluti rétt upp. Ég hef sagt frá fyrsta degi að það væru mjög slæmar fréttir ef hér kæmust á viðskiptahindranir þegar Bretar gengju út úr Evrópusambandinu. Það snýr ekki bara að tollum. Þetta snýr líka að tæknilegum viðskiptahindrunum því að tollar eru ekki jafn mikilvægir og þeir voru áður eða jafn stór þáttur í þessu og áður. Tæknilegar viðskiptahindranir eru orðnar miklu stærri þáttur.

Varðandi markmið og aðgerðir erum við sem betur fer í nýju umhverfi þegar kemur að opinberum fjármálum. Við erum að fóta okkur í öllum ráðuneytum, þar með talið utanríkisráðuneytinu í nýrri vinnu hvað það varðar. En Róm var ekki byggð á einum degi og við segjum hlutina bara eins og þeir eru. Ef við erum ekki komin lengra en raun ber vitni þá erum við ekkert að skafa utan af því.