150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Við þurfum alltaf að líta sérstaklega til þess hvernig við nýtum fjármuni hins opinbera. Mér finnst að vísu kostur þegar kemur að fjárheimildum til utanríkisráðuneytisins að alla jafna er það vel skilgreint. Við erum t.d. að setja fjármuni í hluti sem verða ekki endalaust til staðar, til að mynda formennskuna í Norðurskautsráðinu sem ég held að við séum sammála um að séu hagsmunir okkar að gera vel. Sömuleiðis þegar við sækjumst eftir að taka að okkur verkefni, hvort sem það er Evrópuráðið eða UNESCO, þá er það sérstaklega skilgreint. Margt af þessu, t.d. 360 milljónir sem til eru komnar vegna launa- og verðlagsbreytinga, er eitthvað sem er ekki ráðið við. Við höfum hins vegar unnið að hagræðingu alveg frá því að ég tók við. Við skoðuðum það og mátum og reyndum að nálgast þetta eins og við værum að byggja upp utanríkisþjónustu núna. Það er ástæðan fyrir því að við t.d. lokuðum sendiráðinu í Vín, við þurfum ekki að hafa tvíhliða sendiráð þar, Austurríki er ekki með tvíhliða sendiráð hér og það er ekki meðal okkar mikilvægustu viðskipta- eða samstarfslanda en við höldum samt sem áður fastanefndinni, bara svo eitt lítið dæmi sé tekið. Svo má nefna útboð og ýmislegt annað og sömuleiðis þegar kemur að breytingunni á Íslandsstofu miðar hún að því að nýta fjármuni betur en gert hefur verið. Við erum öll sammála um að við þurfum að gæta hagsmuna okkar. Ef við gætum ekki hagsmuna okkar við Brexit lendir íslenskt efnahagslíf í mjög vondum málum, bara mjög vondum málum, svo eitt skýrt dæmi sé tekið. Hið sama á við um fríverslunarsamninga og annað slíkt.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort það verði flótti úr Evrópusambandinu. Ef ég á að ræða ESB-málin þarf ég meira en tvær mínútur, það liggur alveg fyrir, virðulegur forseti.